Fótbolti

Mané á skotskónum er Bayern rúllaði yfir Frankfurt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mané byrjar vel á nýjum stað.
Mané byrjar vel á nýjum stað. Christian Kaspar-Bartke/Getty Images

Þýskalandsmeistarar Bayern München unnu 6-1 sigur á Evrópudeildarmeisturum Eintracht Frankfurt í fyrstu umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld.

Bayern München á titil að verja tíunda árið í röð en liðið hóf þá vörn af miklum krafti. Joshua Kimmich kom liðinu yfir á fimmtu mínútu og sex mínútum síðar tvöfaldaði Frakkinn Benjamin Pavard þá forystu.

Sadio Mané, sem kom frá Liverpool til Bæjara í sumar, var að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir félagið en hann skoraði sitt fyrsta mark eftir stoðsendingu Serge Gnabry á 29. mínútu.

Jamal Musiala skoraði fjórða markið á 35. mínútu eftir stoðsendingu Thomasar Müller en Müller lagði svo fimmta markið upp fyrir Gnabry á 43. mínútu.

Eftir frábæran fyrri hálfleik slökuðu gestirnir aðeins á klónni í síðari hálfleik en Randal Kolo Muani skoraði sárabótamark fyrir Frankfurt um miðjan hálfleikinn. Musiala svaraði fyrir það með sínu öðru marki á 83. mínútu.

Bayern vann því 6-1 og er strax komið á sigurbraut í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×