Körfubolti

Helena lengur í landsliðinu heldur en liðsfélagar hennar hafa lifað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir á ferðinni í einum af 79 landsleikjum sínum.
Helena Sverrisdóttir á ferðinni í einum af 79 landsleikjum sínum. Vísir/Daníel Þór

Helena Sverrisdóttir lék á ný með íslenska kvennalandsliðinu í æfingarlandsleikjum í Finnlandi um helgina og er fyrir vikið sú sem á nú lengsta landsliðsferilinn.

Þetta voru fyrstu landsleikir Helenu síðan í nóvember árið 2019 og því næstum því þrjú ár síðan hún lék með íslenska landsliðinu.

Helena lék sinn fyrsta landsleik 27. desember 2002 og en hún lék sinn 78. og 79. landsleik út í Finnlandi.

Landsliðsferill hennar telur nú 19 ár, 7 mánuði og 10 daga.

Anna María Sveinsdóttir átti áður metið yfir lengsta landsliðsferillinn því hún lék með landsliðinu frá því í apríl 1986 fram í júlí 2004.

Landsliðsferill Önnu Maríu var því 18 ár, 3 mánuðir og 6 dagar.

Sú sem skipar þriðja sætið á þessum lista er Hildur Sigurðardóttir en landsliðsferill hennar stóð í 15 ár, 2 mánuði og 12 daga.

Næstar á eftir henni á listanum yfir lengstu landsliðsferlana eru Bryndís Guðnundsdóttir og Birna Valgarðsdóttir.

Helena jafnaði landsleikjamet Hildar í seinni leiknum og slær það því í næsta leik þegar hún getur orðið sú fyrsta til að spila 80 landsleiki fyrir íslenska kvennalandsliðið í körfubolta.

Það fylgir líka sögunni að fjórir leikmenn sem léku með Helenu úti í Finnlandi um helgina voru ekki fæddar þegar hún lék sinn fyrsta landsleik. Það eru þær Vilborg Jónsdóttir, Diljá Ögn Lárusdóttir, Helena Rafnsdóttir og Elísabeth Ýr Ægisdóttir. Þær eru allar fæddar árið 2003.

Lengsti ferill með íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta:

  • 1. Helena Sverrisdóttir - 19 ár, 7 mánuðir og 10 dagar
  • 2. Anna María Sveinsdóttir - 18 ár, 3 mánuðir og 6 dagar
  • 3. Hildur Sigurðardóttir - 15 ár, 2 mánuðir og 12 dagar
  • 4. Bryndís Guðnundsdóttir - 14 ár, 5 mánuðir og 4 dagar
  • 5. Birna Valgarðsdóttir - 13 ár, 8 mánuðir og 2 dagar
  • 6. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir- 13 ár, 5 mánuðir og 5 dagar
  • 7. Helga Þorvaldsdóttir - 12 ár og 7 dagar
  • 8. Guðbjörg Norðfjörð - 11 ár, 8 mánuðir og 12 dagar
  • 9. Kristín Blöndal - 11 ár, 6 mánuðir og 27 dagar
  • 9. Hanna B. Kjartansdóttir - 11 ár, 6 mánuðir og 27 dagar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×