Skoðun

Að­gengis­stétta­skipting í heil­brigðis­kerfinu

Íris Róbertsdóttir skrifar

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um stöðu heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu á að vera grundvallaratriði í samfélagsuppbyggingunni. Sú er hins vegar ekki raunin fyrir fólk á landsbyggðinni í dag. Formaður Læknafélags Íslands hefur verið að taka út stöðuna á landsbyggðinni hvað varðar læknamönnun. Fréttablaðið fylgdi því máli vel eftir og var m.a. viðtal við Davíð Egilsson, yfirlækni heilsugæslu HSU í Vestmannaeyjum, sem segir að ástandið í Eyjum sé óásættanlegt. Læknamönnunin geti verið allt niður í 50-75% af þörfinni og þetta sé ekki einsdæmi á landsbyggðinni. Það er augljóst að það ástand mun ekki geta gengið mikið lengur.

Tryggja þarf grunnheilbrigðisþjónustu um allt land

Eitt mikilvægasta verkefnið næstu misserin er mönnun heilsugæslunnar til að hægt sé að tryggja grunnþjónustu á landsbyggðinni. Það er þörf á sameiginlegu átaki og nauðsynlegt að fulltrúar landsbyggðarinnar komi saman að borðinu gagnvart ríkinu svo hægt sé að þoka málum áfram af einhverjum krafti. Það verður að búa þannig um hnútana að hægt sé að manna stöður heilbrigðisstarfsfólks þannig að þau geti veitt þá grunnheilbrigðisþjónustu sem þeim er ætlað að veita. Til þess að það raungerist þarf breytingu á því umhverfi sem er í dag.

Stefnumótandi byggðaáætlun árin 2022-2036

Í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 sem samþykkt var á alþingi 15. júní sl. eru sett fram framtíðarsýn og meginmarkmið og lykilviðfangsefni skilgreind.

„Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.

Meginmarkmið eru tvenns konar: Innviðir mæti þörfum samfélagsins og að byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær.“

Samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir er markmið stjórnvalda í byggðamálum að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Þessi metnaðarfulla tillaga styður við þessi markmið og er með 43 aðgerðum til að mæta meginmarkmiðumun. Mikilvægt er að forgangsraða þessum þörfu aðgerðum því ekki verður allt gert í einu. Rík áhersla þarf að vera á markmiðin sem falla undir lið A, Jafna aðgengi að þjónustu, með áherslu á heilbrigðisþjónustu. Eitt af markmiðunum lýtur að viðbragði neyðarþjónustu og auknu öryggi um land allt. Eitthvað sem ætti að vera nú þegar í lagi.

Sjúkraflugið getur ekki sinnt öllu landinu!

Fyrir liggur að oft þarf að flytja sjúklinga í sérhæfðari þjónustu á Landspítala en unnt er að veita í heimabyggð. Það kallar á að skilgreina þarf ásættanlegan viðbragðstíma og þjónustustig utanspítalaþjónustu. Tilgangurinn er að auka öryggi íbúa á landsbyggðinni með því að styrkja og breyta fyrirkomulagi sjúkraflugs, m.a. með tilkomu sérhæfðrar sjúkraþyrlu. Viðbragðstíminn skiptir öllu máli og það ætti að vera öllum ljóst að fyrirkomulagið eins og það er í dag er ekki að þjónusta allt landið sem skyldi. Sérhæfð sjúkraþyrla á Suðurlandi er verkefni sem er tilbúið og myndi stórbæta ástandið í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi öllu hvað varðar sjúkraflutninga og neyðarþjónustu, en það er ófjármagnað. Það þarf að gera breytingar til að tryggja að allir landsmenn geti notið þjónustu Landspítalans með sambærilegum hætti.

Ráðherra hefur nú skipað samráðshóp til að fara yfir sjúkraflutningaþættina en til viðbótar er mikil vinna eftir varðandi jöfnun á aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu. Samráðshópurinn, sem ég sit í, hefur haldið einn fund og bind ég vonir við að út úr þessari vinnu komi lausnamiðaðar tillögur sem munu bæta stöðuna.

Ég skynja að það er vilji hjá ráðherra til bóta en það þarf aðgerðir. Það þarf kannski „uppskurð“ á heilbrigðiskerfinu okkar og þá er allt undir.

Við getum gert betur!

Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra. Það er margt gott í heilbrigðiskerfinu okkar en það eru líka hlutir sem þarf að laga og jafnvel stórbæta. Það þarf að vera í lagi að ræða um alla þætti og það er mikilvægt að hlustað sé á alla aðila, fagfólk og líka notendur þjónustunnar. Og við þurfum væntanlega ekki að finna upp hjólið í þessum efnum. Trúlega eru til kerfi eða fyrirkomulag í nágrannalöndunum sem við getum nýtt okkur að einhverju leyti.

Lærum af öðrum, byggjum upp og tryggjum jafnt aðgengi fyrir alla!

Höfundur er bæjarstjóri Vestmannaeyja.




Skoðun

Sjá meira


×