Íslenski boltinn

Segist hafa orðið fyrir rasisma á Selfossi: „Ef hann drepst er fullt af Pólverjum sem geta komið í staðinn fyrir hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Jastrzembski fer ekki fögrum orðum um dvöl sína á Selfossi.
Chris Jastrzembski fer ekki fögrum orðum um dvöl sína á Selfossi. selfoss

Pólski fótboltamaðurinn Chris Jastrzembski segist hafa yfirgefið Selfoss vegna kynþáttafordóma. Hann ræður öðrum pólskum leikmönnum frá því að spila á Íslandi.

Jastrzembski gekk í raðir Selfoss fyrir tímabilið og lék þrettán leiki í deild og bikar með liðinu áður en hann skipti yfir til Prey Veng í Kambódíu í síðasta mánuði.

Í viðtali við Gazeta í heimalandinu fer hann ekki fögrum orðum um dvölina á Selfossi og segir að sér hafi verið mismunað vegna kynþáttar.

„Þetta er versta land sem ég hef komið til á ævinni. Ég fer aldrei þangað aftur. Margir Pólverjar búa þarna og hafa það fínt en reynsla mín af Íslendingum er hræðileg. Ég myndi ekki mæla með þessu fyrir neinn. Fólk er dregið í dilka þarna,“ sagði Jastrzembski.

„Félagið kom verr fram við mig því ég er með pólskt vegabréf. Frá fyrsta degi bar þetta fólk enga virðingu fyrir mér.“

Í viðtalinu rifjaði Jastrzembski upp atvik sem situr greinilega mikið í honum. Hann var þá að setja saman vinnupall á íþróttasvæðinu á Selfossi og var uppi í stiga sem íslensk kona hélt við.

„Þá kom yfirmaðurinn og sagði henni að hætta að hjálpa mér því vindurinn væri ekki það sterkur og það yrði í góðu lagi með mig. Konan fór í burtu og ég datt,“ sagði Jastrzembski og bætti við að konan hefði verið afar leið yfir þessu. Hann sagði henni að hafa ekki áhyggjur. Yfirmaðurinn ræddi í kjölfarið við hana á íslensku og hún þýddi það sem hann sagði fyrir Jastrzembski.

„Til fjandans með hann. Hann er bara Pólverji. Ef hann drepst er fullt af Pólverjum sem geta komið í staðinn fyrir hann.“

Jastrzembski, sem er 25 ára, var um tíma á mála hjá Hamburg í Þýskalandi og á leiki fyrir yngri landslið Póllands á ferilskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×