Málið sem um ræðir átti á sínum tíma þátt í að Park Geun-hye, forseti Suður-Kóreu, hrökklaðist frá völdum. Lee var dæmdur til þrjátíu mánaða fangelsisvistar en hann átti um ár eftir að afplánuninni þegar honum var sleppt á reynslulausn í ágúst í fyrra.
Sjá einnig: Samsung-erfinginn á reynslulausn
Hann hafði verið dæmdur fyrir að múta forsetanum til að tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar við samruna tveggja fyrirtækja í Samsung-veldinu sem tryggði yfirráð Lee yfir viðskiptaveldinu. Samsung er gífurlega áhrifamikið fyrirtæki í Suður-Kóreu og ríkið treystir í raun á tekjur frá rekstri þess.
Auk Lee verða um 1.700 dæmdir menn náðaðir á mánudaginn en þá hefjast hátíðarhöld þar sem haldið verður upp á það þegar Kórea varð laus undan oki Japans í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.
Reuters segir náðun Lee að mestu táknræna þar sem hann hafi þegar verið á reynslulausn. Fréttaveitan hefur þó eftir greinendum að náðunin feli í sér að færri bönd verði á Lee og fjárfestingar Samsung gætu aukist.
Þakklátur fyrir náðunina
Yonhap fréttaveitan, sem er frá Suður-Kóreu, hefur eftir Lee að hann sé þakklátur fyrir náðunina og muni vinna hörðum höndum til að bæta efnahagsástandið í ríkinu. Verðbólga hefur aukist töluvert þar og dregið hefur úr eftirspurn og neyslu.
Meðal annarra auðjöfra sem verða náðaðir eru Shin Dong-bin, formaður Lotte Group, en hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi árið 2018 fyrir mútur.
Hefð er fyrir því að forsetar Suður-Kóreu náði fólk á hátíðardögum en Yonhap segir áhrifamikla auðjöfra iðulega njóta góðs af þeirri hefð og þá á þeim grundvelli að þeir eigi að hjálpa til við að bæta stöðu hagkerfisins og bæta lífsskilyrði fólks.
Talið var að Yoon myndi einnig náða Lee Myung-bak, fyrrverandi forseta, en sá er 81 árs gamall. Hætt var við að náða hann á síðustu stundu, vegna þess hve óvinsæll hann er, samkvæmt Yonhap.