Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru fjölmörg og fjölbreytt um helgina ef marka má færslu á Facebook-síðu embættisins. Einn stuðningsmaður knattspyrnuliðs fékk heimsókn frá lögreglumönnum þegar lið hans var að fá ansi „háðuglega útreið“ eins og það er orðað í færslunni.
Nágrannar mannsins höfðu samband við lögreglu þegar hann hafði misst stjórn á skapi sínu og gaf frá sér mikil óhljóð er hann horfði á leikinn. Þrátt fyrir að nafn liðsins sé ekki nefnt í færslunni má gera ráð fyrir því að maðurinn sé stuðningsmaður Manchester United en þeir töpuðu 4-0 gegn Brentford á laugardaginn.
Nær vonandi að halda ró sinni gegn Liverpool
„Maðurinn var að horfa á leikinn í sjónvarpi og reiddist mjög, með tilheyrandi hljóðum, þegar fór að síga á ógæfuhliðina og mörkunum rigndi í vitlaust mark. Við þetta hringdu nágrannar stuðningsmannsins í lögreglu enda óttuðust þeir hið versta,“ segir í færslunni.
Þegar lögregla kom á staðinn hafði maðurinn róast og vonar lögreglan að hann hafi stjórn á skapi sínu næst þegar illa gengur hjá hans mönnum á vellinum. Það gæti verið stutt í næstu útreið en næsti leikur Man Utd er á mánudaginn eftir viku þar sem þeir mæta sterku liði Liverpool.
Tólf innbrot tilkynnt
Í færslunni kemur einnig fram að tólf innbrot hafi verið tilkynnt til lögreglu um helgina, sex í fyrirtæki og sex í bifreiðar. Þá var lögregla kölluð til í allnokkur skipti vegna þjófnaða í verslunum.
Fimm líkamsárásir voru tilkynntar um helgina, þar af tvær alvarlega. Þá var farið í fjögur útköll vegna heimilisofbeldis. Alls var 21 ökumaður tekinn fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu.