Fótbolti

Mourinho splæsti í pizzupartý

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mourinho á hliðarlínunni í Salerno í gærkvöld. Rómverjarnir virðast kunna vel í pizzurnar þar í bæ.
Mourinho á hliðarlínunni í Salerno í gærkvöld. Rómverjarnir virðast kunna vel í pizzurnar þar í bæ. Francesco Pecoraro/Getty Images

José Mourinho pantaði 60 pizzur fyrir leikmenn sína og starfslið eftir 1-0 sigur Roma á Salernitana í fyrstu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í gærkvöld. Mikils er vænst af Roma á komandi leiktíð.

Eftirvæntingin var mikil fyrir fyrsta leik Roma á leiktíðinni en Paulo Dybala var þar að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið. Roma var sterkari aðilinn í leiknum en sigurinn var naumur, 1-0, með langskots marki miðjumannsins Bryans Cristante.

Mourinho var ánægður að fá þrjú stig og ákvað að halda upp á sigurinn með því að panta pizzur fyrir leikmenn og starfslið Roma, og borga sjálfur brúsann. Hann endurtók þar með leikinn frá því fyrra, en þá gerði hann slíkt hið sama eftir 4-0 sigur Roma í Salerno.

Fyrsti heimaleikur liðsins í deildinni er í næstu viku en Roma fær Cremonese í heimsókn á Ólympíuvöllinn í Róm á mánudagskvöldið næsta.

Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×