Þrír voru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í dag í tengslum við rannsókn lögreglu á stærsta kókaínmáli sem upp hefur komið hér á landi. Fjórði maðurinn sem grunaður er um aðild að málinu hefur verið færður í afplánun vegna annarra mála.
Lögreglan greindi frá því í dag að hún hefði lagt hald á tæplega hundrað kíló af kókaínu sem falið var í vörusendingu hér á landi
Sé tekið mið af verðkönnun SÁÁ á götuvirði vímuefna hér á landi, sem síðast var uppfærð í maí síðastliðnum, er algengt verð á grammi af kókaínu um nítján þúsund krónur.
Sé miðað við það verð og þá forsendu að hvert einasta gramm af því kókaíni sem lagt var hald á í aðgerðum lögreglu yrði selt er götuvirði magnsins um 1,9 milljarðar króna.
Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV voru efnin falin í timbursendingu í gámi. Efnin fundust fyrst í Hollandi en voru gerð upptæk hér á landi. Sem fyrr segir er um að ræða stærsta kókaínmál Íslandssögunnar en árið 2016 lagði lögregla hald á sextán kíló af kókaíni sem falið var í ferðatösku.