Fótbolti

Botnliðin þrjú töpuðu öll í Lengjudeild kvenna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fylkir vann öruggan sigur gegn Fjölni í kvöld.
Fylkir vann öruggan sigur gegn Fjölni í kvöld.

Þrír leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í kvöld þar sem botnliðin þrjú, Haukar, Fjölnir og Augnablik, töpuðu öll. Haukar máttu þola 0-2 tap gegn Víking, Fjölnir steinlá á heimavelli gegn Fylki, 1-4, og Augnablik tapaði 0-3 gegn Grindavík.

Emma Steinsen Jónsdóttir og Nadía Atladóttir sáu um markaskorun Víkings gegn Haukum og er liðið nú með 26 stig í fjórða sæti deildarinnar eftir 14 leiki.

Haukar sitja hins vegar enn á botni deildarinnar með fjögur stig og þarf á kraftaverki að hadla til að halda sæti sínu í deildinni.

Talandi um lið sem þarf á kraftaverki að halda þá eru Fjölniskonur einnig með aðeins fjögur stig eftir 1-4 tap gegn Fylki. Eva Rut Ástþórsdóttir skoraði mark Fylkiskvenna í fyrri hálfleik áður en Silja Fanney Angantýsdóttir jafnaði metin fyrir Fjölni.

Eva Rut Ástþórsdóttir skoraði annað mark sitt og annað mark Fylkis snemma í síðari hálfleik áður en Erna Sólveig Sverrisdóttir gerði út um leikinn með tveimur mörkum.

Fylkir situr nú í sjöunda sæti deildarinnar með 16 stig, en sigur kvöldsins þýðir að liðið er formlega sloppið við fall.

Að lokum vann Grindavík öruggan 0-3 útisigur gegn Augnabliki og situr nú í sjötta sæti deildarinnar með 17 stig. Augnablik situr í áttunda sæti með 12 stig og liðið er að öllum líkindum búið að bjarga sér frá falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×