Fótbolti

Mikael skoraði framhjá Elíasi og vann gömlu félagana

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mikael fagnar marki sínu í dag.
Mikael fagnar marki sínu í dag. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Mikael Anderson fagnaði sigri gegn sínum gömlu félögum í Midtjylland þegar AGF fór með 2-0 útisigur af hólmi í leik liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Elías Rafn Ólafsson var að venju í byrjunarliði Midtjylland í leiknum en Mikael kom aftur inn í leikmannahóp AGF eftir meiðsli og var á bekknum.

Markalaust var í hléi en þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik kom varnarmaðurinn Yann Bisseck AGF í forystu. Tæpum níu mínútum síðar kom Mikael inn af bekknum og spilaði síðustu 20 mínúturnar fyruir AGF.

Það var hann sem gerði út um leikinn er hann skoraði annað mark gestanna frá Árósum á 86. mínútu og þurfti Elías Rafn að sækja boltann í netið öðru sinni.

AGF jafnar topplið Nordsjælland að stigum með sigrinum, með 13 stig eftir sex leiki, en þeir síðarnefndu eiga leik inni. Midtjylland hefur aftur á móti farið illa af stað eftir að hafa lent í öðru sæti deildarinnar í fyrra. Liðið hefur aðeins unnið einn leik og er með sex stig í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×