Körfubolti

Brynjar Þór: Maður segir aldrei alveg skilið við körfuboltann

Atli Arason skrifar
Brynjar Þór Björnsson í leik með KR.
Brynjar Þór Björnsson í leik með KR. Vísir/Bára

Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, tilkynnti í gær að hann ætlaði að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril í körfubolta. Brynjar segist þó ekki alveg horfinn af sjónarsviðinu en ætlar að taka sér smá pásu frá boltanum.

„Maður segir aldrei alveg skilið við körfuboltann. Ég ætla allavegana aðeins að bíða með að fara í einhverja þjálfun eða eitthvað svoleiðis og leyfa þessu aðeins að sjatna en svo sjáum við til,“ sagði Brynjar Þór Björnsson í viðtali við Stöð 2 í gær.

Brynjar spilaði 69 leiki með landsliðinu á sínum ferli og fór meðal annars með landsliðinu á EM. Eins og kannski flestir, þá bjóst hann ekki við þessari ótrúlegu framþróun á íslenskum körfubolta sem hefur átt sér stað frá því hann byrjaði að spila.

„Þegar maður kemur fyrst inn í þetta 2006 þá erum við í harki í þessu B-deildar fyrirkomulagi sem var hérna áður fyrr. Þá horfði maður á þetta eins og maður ætti engan möguleika að komast á eitthvað mót,“ sagði Brynjar sem þakkar baráttu Ólafs Rafnssonar heitins, sem barðist fyrir því að minni landslið kæmust inn á stórmót.

„Með þessari gullkynslóð, 82 og 81 árganginum þá gerðist eitthvað fallegt. Þetta var eiginlega toppurinn á ferlinum því það var svo gaman að vera í landsliðinu. Peningar skiptu engi máli og menn voru bara í þessu af ástríðu. Þá fórnuðu menn sumarfríinu til að vera með landsliðinu því þetta var svo ógeðslega skemmtilegt. Menn fórnuðu tíma sínum fyrir land og þjóð,“ sagði Brynjar Þór Björnsson.

Brynjar fór um víðan völl í viðtali við Guðjón Guðmundsson en samtalið þeirra í heild má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Brynjar Þór: Maður segir aldrei alveg skilið við körfuboltann

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×