Fótbolti

Þurfti metfjölda markvarsla til að stöðva sigurgöngu Bayern

Atli Arason skrifar
Yann Sommer handsamar knöttinn á Allianz Arena í dag.
Yann Sommer handsamar knöttinn á Allianz Arena í dag. Getty Images

Borussia Mönchengladbach varð í dag fyrsta liðið til að taka stig af Bayern München á þessu tímabili í þýsku úrvalsdeildinni. Það þurfti þó stórkostlega frammistöðu frá Yann Sommer, markverði liðsins, til að sækja stigið í 1-1 jafntefli.

Sommer setti nýtt met í leiknum með því að verja 19 skot en enginn hefur varið jafn mörg skot í einum leik í þýsku úrvalsdeildinni frá því að mælingar hófust. Fyrra metið stóð í 14 markvörslum.

Það er óhætt að fullyrða að yfirburðir Bæjara hafi verið algjörir í þessum leik en það var þó Marcus Thuram sem kom gestunum frá Mönchengladbach yfir í leiknum með marki á 43. mínútu.

Sommer tókst að halda Mönchengladbach inn í leiknum alveg fram að 83. mínútu þegar Leroy Sane skoraði jöfnunarmark Bayern og þar við sat.

Bayern München er þó enn þá í efsta sæti deildarinnar með 10 stig. Borussia Mönchengladbach er hins vegar í 6. sæti með 8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×