Óttar Bjarni sneri aftur á heimahagana í Breiðholtið frá ÍA í haust en áður hafði hann einnig leikið með Stjörnunni. Hann byrjaði sinn fyrsta leik í deildinni gegn KA á Dalvík þann 20. apríl en fór meiddur af velli eftir aðeins 20 mínútna leik.
Hann fékk þar heilahristing og var frá í tæpa fjóra mánuði þar sem hann sneri ekki aftur á völlinn fyrr en í leik Leiknis við Fram þann 15. ágúst síðastliðinn, hvar hann spilaði fyrri hálfleikinn með Leikni.
Honum tókst þá að spila allar 90 mínúturnar í fræknum 4-3 sigri Leiknis á KR síðasta mánudag en eftir aðeins rúmlega 20 mínútna leik í gær skallaði hann saman við liðsfélaga sinn, Dag Austmann Hilmarsson, og þurfti að fara af velli vegna þeirra meiðsla.
Óvíst er hversu mikið bakslag höggið reynist vera í endurhæfingu Óttars eftir heilahristinginn í vor, en einnig má vera að um varúðarráðstöfun hafi verið að ræða. Leiknismenn sendu á hann batakveðjur á samfélagsmiðlum í gær.