Þetta staðfestir Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, sem fer með rannsókn málsins, í samtali við Fréttablaðið. Samkvæmt fréttinni er tengdadóttir hjónanna ekki með stöðu sakbornings í málinu en samkvæmt heimildum var hún stödd á heimilinu þegar árásin var framin.
Skýrsla var tekin af Kára í gær en hann liggur enn á sjúkrahúsi og er veikburða. Ástand hans var þó metið þannig á mánudag að hann gæti gefið lögreglu skýrslu um atburðarrásina á heimili hans á Blönduósi.
Fréttastofa greindi frá því í gær að talið væri að Brynjar Þór Guðmundsson, sem er grunaður um að hafa ráðist inn á heimili Kára og eiginkonu hans, væri annar sakborninga. Að sögn Páleyjar í Fréttablaðinu er það ekki svo.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að atburðarásin hafi verið á þann veg að Brynjar Þór skaut Evu Hrund til bana og særði Kára alvarlega.
Uppkominn sonur hjónanna, sem talinn er hafa í framhaldinu stöðvað vopnaðan árásarmanninn, hefur stöðu sakbornings hjá lögreglu. Samkvæmt heimildum fréttastofu var hann gestur á heimili foreldra sinna ásamt unnustu og ungu barni. Sonurinn var handtekinn ásamt unnustu sinni á vettvangi og tekin af þeim skýrsla. Þeim var báðum sleppt samdægurs úr haldi lögreglu.