Erlent

Barn dó í hagléli á Spáni og fimmtíu slösuðust

Samúel Karl Ólason skrifar
Haglélið var gífurlega stórt og olli umfangsmiklum skemmdum.
Haglélið var gífurlega stórt og olli umfangsmiklum skemmdum. Veðurstofa Spánar

Tuttugu mánaða gömul stúlka lést á Spáni í gær eftir að hafa orðið fyrir stærðarinnar hagléli. Þá slösuðust fimmtíu er mjög óvenjulegt óveður gekk yfir La Bisbal de l’Emporda og aðra bæi í Girona í Katalóníu á Spáni. 

Veðurstofa Spánar segir haglið hafa verið tíu sentímetra breitt, að meðaltali. Óveðrið olli gífurlegum skemmdum.

Þetta ku vera stærsta haglél sem skollið hefur á Katalóníu í tuttugu ár. Haglélinu rigndi á bæinn í nokkrar mínútur eftir að það hófst á áttunda tímanum í gærkvöldi.

Í frétt El País segir að stúlkan hafi fengið hagl í höfuðið og hún hafi dáið á sjúkrahúsi í kjölfarið.

Af þeim fimmtíu sem sagðir eru hafa slasast þurfti að sauma nokkra eftir að þeir urðu fyrir hagli.

Veðurfræðingar eiga von á meira óveðri á svæðinu og er mögulegt að stórt hagl gæti fallið aftur af himnum ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×