Handbolti

Loginn brennur á ný í Seinni bylgjunni: „Ætlum að koma þessu í nýjar hæðir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Logi Geirsson með allt upp á tíu, Elvis-gleraugu og hneppt niður á nafla.
Logi Geirsson með allt upp á tíu, Elvis-gleraugu og hneppt niður á nafla. stöð 2

Áhöfn Seinni bylgjunnar fyrir tímabilið 2022-23 er nú fullmönnuð. Síðastur, en alls ekki sístur, til að koma um borð er sjálfur Logi Geirsson.

Silfurdrengurinn úr Hafnarfirðinum er ekki ókunnur Seinni bylgjunni en hann var sérfræðingur hennar um tveggja ára skeið. Logi iðar í skinninu að hefjast handa.

„Ég get eiginlega ekki beðið. Það er mikið af spennandi hlutum að gerast, deildin aldrei jafn sterk og það sem mér finnst vera helsti munurinn á henni, og ástæðan fyrir því að mig langaði að koma aftur, að þetta er að færast úr því að vera áhugamennska yfir í hálf atvinnumennsku,“ sagði Logi sem ætlar að láta til sín taka á skjánum í vetur.

„Ég ætla að færa þetta upp á við. Það er sveifla með handboltanum. Landsliðinu gekk vel á EM, allir eru spenntir fyrir HM og margir nýir iðkendur. Fólk veit þegar ég er í sjónvarpinu að það verður alltaf eitthvað nýtt, ferskt og gaman. Þetta verður gott sjónvarp og við ætlum að koma þessu í nýjar hæðir með frábæru teymi.“

En hverju á Logi von á í Olís-deildinni í vetur?

„Þessi klisja að deildin sé alltaf að verða sterkari og sterkari með hverju árinu er sönn. Við sjáum það í Evrópukeppninni. Síðustu tíu árin hef ég talað um að koma okkur á þann stað að vera samkeppnishæfir við þessi lið í Evrópu. Á síðustu árum höfum við sýnt að við erum ansi nálægt þeim. Menn eru að setja meira í þetta. Við erum að fá fleiri góða handboltamenn, æfum meira og stöndumst stóru liðunum snúning,“ svaraði Logi.

Klippa: Logi kominn aftur

Auk Loga verða Arnar Daði Arnarsson, Theodór Ingi Pálmason, Þorgrímur Smári Ólafsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Jóhann Gunnar Einarsson í sérfræðingateymi Seinni bylgjunnar. Þeir þrír síðastnefndu verða í upphitunarþætti fyrir tímabilið sem verður á dagskrá Stöðvar 2 Sports klukkan 22:00 á mánudaginn.

Keppnistímabilið 2022-23 hefst formlega í dag þegar Valur og KA eigast við í Meistarakeppni HSÍ á Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×