Íslenski boltinn

Erfitt að gagn­rýna menn fyrir að klúðra víta­spyrnu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Eiður Smári þungt hugsi.
Eiður Smári þungt hugsi. Vísir/Hulda Margrét

„Við segjum bara hlutina eins og þeir eru, þetta voru tvö kjörin tækifæri til að klára leikinn. Við ætlum greinilega ekki auðveldu leiðina í þessu,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH eftir að hans menn gerðu markalaust jafntefli við Leikni í Bestu deildinni. FH misnotaði tvær vítaspyrnur í leiknum.

„Við megum ekki hengja haus. Það eru fjórir dagar síðan við vorum í skýjunum og svo erum við svekktir í dag. Við höldum hreinu í þriðja sinn í röð í deildinni sem er jákvætt,“ bætti Eiður Smári við en FH tryggði sér sæti í úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudag eftir dramatískan leik gegn KA. Þeir eru hins vegar enn í bullandi fallbaráttu í Bestu deildinni.

FH byrjaði leikinn ekki vel í dag og Leiknismenn voru mun sprækari aðilinn í upphafi. FH vann sig þó inn í leikinn þegar á leið en leikur Hafnfirðinga náði aldrei neinum sérstökum hæðum í dag.

„Það vantaði aðeins orku, hvort það var smá þreyta eða hvað. Það tók okkur góðan hálftíma að koma okkur inn í leikinn en við áttum fínustu kafla og nokkur þokkaleg færi. Eitt stig, við tökum það með okkur.“

Sóknarlega voru FH-ingar bitlausir lengi vel og lítill hraði í þeirra leik.

„Það vantaði í raun aðeins meiri ákefð. Við vorum í ágætum stöðum en af því að ákefðin var ekki næg þá nýttum við þær stöður ekki nógu vel. Það er alveg eðlilegt eftir að adrenalínið er búið að fara upp í vikunni þá vill maður upplifa þá stemmningu aftur og það er erfitt að finna hana.“

„Ég hef alveg skilning á því að það hafi verið smá slen í okkur en þegar leið á leikinn þá stigum við meira og meira upp. Auðvitað er það svekkjandi að hafa ekki klárað þetta.“

Steven Lennon misnotaði fyrri vítaspyrnu FH í dag en hann klikkaði einnig á vítapunktinum í leiknum gegn KA á fimmtudag.

„Ég þekki ekki þessa tilfinningu, sem betur fer,“ sagði Eiður Smári glottandi.

„Ég á rosalega erfitt með að gagnrýna menn fyrir einhver einstaklingsmistök eða að misnota vítaspyrnu því það eru allir að gera þetta af einlægni. Það er enginn sem ætlar sér að klúðra á einhverjum svona augnablikum.“

„Ég horfi ekki svo mikið á það, ég horfi miklu frekar á hvernig við komum inn í leikinn og hvernig við náðum smám saman að bæta okkar leik og setja pressu á Leiknismenn. Það er margt sem ég er ánægður með og margt sem ég er svekktur yfir,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen að lokum.


Tengdar fréttir

Leik lokið: Leiknir R.-FH 0-0 | Viktor Freyr hetja Leiknis er hann varði víta­spyrnu í upp­bótar­tíma

Leiknir Reykjavík og FH gerðu markalaust jafntefli í sannkölluðum sex stiga fallslag í Bestu deild karla í dag. Gestirnir úr Hafnafirði brenndu af tveimur vítaspyrnum í leiknum. Þá fyrri setti Steven Lennon í slánna og þá síðari, á síðustu mínútu uppbótartíma varrði Viktor Freyr Sigurðsson frá Birni Daníel Sverrissyni. Umfjöllun og viðtöl væntanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×