Íslenski boltinn

Fram­kvæmda­stjórinn um á­kvörðun KA að selja Nökkva Þey: „Mjög erfið en samt í raun ekki“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sævar segir KA vilja selja leikmenn erlendis.
Sævar segir KA vilja selja leikmenn erlendis. Vísir/Tryggvi

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir það markmið KA að koma leikmönnum út í atvinnumennsku. Það sé því í raun erfið ákvörðun, en samt ekki, að leyfa Nökkva Má Þórissyni að fara til belgíska B-deildarliðsins Beerschot.

Sævar staðfesti þetta í viðtali við Fótbolta.net nú rétt í þessu. Hann segir að Beerschot, sem situr í 2. sæti belgísku B-deildarinnar, hafi lagt fram formlegt tilboð í Nökkva Þey á sunnudagskvöld.

Þó KA sé í raun í bullandi titilbaráttu og Nökkvi Þeyr líklegur til að brjóta markamet efstu deildar hér á landi þá segir Sævar að KA ætli ekki að standa í vegi fyrir draumi hans að komast í atvinnumennsku.

Sævar staðfesti einnig í spjalli sínu við Fótbolta.net að formlega væri búið að ganga frá öllu og Nökkvi Þeyr færi í læknisskoðun í Belgíu í kvöld.

„Ef allt gengur eftir þá skrifar hann undir í kvöld eða fyrramálið og allir pappírar frágengnir fyrir miðnætti á morgun því þá lokar glugginn í Belgíu.“

Sævar tekur jafnframt fram að KA hafi sagt við alla þá ungu stráka sem hafa samið við liðið á undanförnum misserum að liðið ætli sér að hjálpa þeim að komast út í atvinnumennsku. Þá staðfestir hann að önnur tilboð hafi borist í Nökkva Þey en leikmaðurinn sjálfi hafi alltaf stefnt á að fara til Hollands eða Belgíu.

KA situr sem stendur í 2. sæti Bestu deildar karla í fótbolta með 37 stig að loknum 20 leikjum. Breiðablik er í 1. sæti með 45 stig en liðið mætir Val í kvöld og getur náð 11 stiga forystu á toppnum. Þá eru Íslandsmeistarar Víkings í 3. sæti með 36 stig en eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×