Fótbolti

Beerschot staðfestir komu Nökkva

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nökkvi Þeyr Þórisson með búning Beerschot.
Nökkvi Þeyr Þórisson með búning Beerschot. beerschot

Nökkvi Þeyr Þórisson, markahæsti leikmaður Bestu deildar karla, er genginn í raðir Beerschot í Belgíu.

Dalvíkingurinn skrifaði undir þriggja ára samning við félagið með möguleika á eins árs framlengingu.

Nökkvi lék sinn síðasta leik fyrir KA þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Fram á sunnudaginn. Hann er markahæstur í Bestu deildinni með sautján mörk. Auk þess skoraði hann sex mörk í Mjólkurbikarnum þar sem KA-menn komust í undanúrslit.

Beerschot er í 2. sæti belgísku B-deildarinnar með sjö stig eftir fjórar umferðir. Næsti leikur liðsins er gegn Lommel á föstudaginn.

Nökkvi er þriðji Íslendingurinn sem semur við Beerschot. Guðmundur Benediktsson var á mála hjá félaginu á árunum 1991-94 en þá hét það Germinal Ekeren. Jón Guðni Fjóluson lék svo með liðinu 2011-12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×