Sport

Ráð­herra hamingjunnar fyrsta konan frá Afríku til að komast í undan­úr­slit á Opna banda­ríska

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ons Jabeur frá Túnis er komin í undanúrslit á Opna bandaríska.
Ons Jabeur frá Túnis er komin í undanúrslit á Opna bandaríska. Cynthia Lum/Getty Images

Ons Jabeur er komin í undanúrslit Opna bandaríska meistaramótsins í tennis. Hún er fyrsta konan frá Afríku til að ná þeim merka áfanga. Hún lagði Ajla Tomljanović í átta manna en sú hafði slegið Serenu Williams út fyrr á mótinu í því sem var líklega síðasti leikur Serenu á ferlinum.

Hin 28 ára gamla Jabeur hefur átt góðu gengi að fagna í ár og fór meðal annars upp í 2. sæti heimslistans fyrr á þessu ári. Hún endaði í öðru sæti á Wimbledon í sumar og ætlar sér eflaust að gera enn betur nú er hún sér fram á að komast í annan úrslitaleik á skömmum tíma.

Jabeur hefur hlotið viðurnefnið „Ráðherra hamingjunnar“ í Túnis, heimalandi sínu. Ástæðan er hversu glaðlynd hún er á meðan keppni stendur. Það var þó annað upp á teningnum gegn Tomljanović.

„Ég held ég verði rekinn sem ráðherra hamingjunnar,“ sagði Jabeur með bros á vör eftir leik en hún lét tilfinningarnar bera sig ofurliði á meðan leik stóð.

„Það er erfitt að fela pirringinn og ég biðst afsökunar á hegðun minni. Ég vildi halda ró minni en spaðinn var alltaf að renna mér úr greipum,“ bætti hún við en tvívegis grýtti Jabeur spaða sínum í jörðina. Það kom þó ekki að sök og á endanum lagði hún Tomljanović í tveimur settum.

„Ég veit að ég hef það sem til þarf til að vinna meistaramót. Ég hef lagt hart að mér (síðan á Wimbledon) og hér er ég nú, komin í undanúrslitin,“ sagði hún að endingu. Þar mun Jabeur mæta Caroline Garcia frá Frakklandi.

Sú sló út ungstirnið Coco Gauff út í átta manna úrslitum en hin 18 ára gamla Gauff stefndi á að verða yngsta bandaríska konan til að komast í úrslit á mótinu síðan Serena gerði það aðeins 17 ára gömul árið 1999.

Garcia hefur spilað frábærlega í New York og ekki enn tapað setti. Það er því ljóst að eitthvað þarf undan að láta er hún og ráðherra hamingjunnar mætast í baráttunni um sæti í úrslitum Opna bandaríska meistaramótsins í tennis.


Tengdar fréttir

„Þetta er sturluð tilfinning“

Tenniskonan Coco Gauff komst í nótt í átta manna úrslit á Opna bandaríska meistaramótinu í fyrsta sinn. Hún hafði betur gegn Zhang Shuai frá Kína.

Serena á­fram á Opna banda­ríska: „Maður veit aldrei hvað gerist“

Tennisdrottningin Serena Williams hefur gefið út að hún gæti lagt spaðann á hilluna að loknu Opna bandaríska meistaramótinu í tennis. Hin fertuga Serena vann sigur í fyrstu umferð en gaf lítið fyrir spurningar blaðamanna um hvað framtíðin bæri í skauti sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×