Fótbolti

„Munum aldrei hætta að syrgja brottför Messi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Xavi Hernández, þjálfari Barcelona, hvetur aðra leikmenn til að stíga upp og taka við keflinu af Lionel Messi.
Xavi Hernández, þjálfari Barcelona, hvetur aðra leikmenn til að stíga upp og taka við keflinu af Lionel Messi. Xavier Bonilla/NurPhoto via Getty Images

Xavi Hernández, þjálfari karlaliðs Barcelona í fótbolta, segir að félagið jafni sig seint á brottför Lionels Messi til Parísar. Þörf sé þó á því að líta til framtíðar.

Xavi var til viðtals eftir 5-1 stórsigur Barcelona á Viktoria Plzen frá Tékklandi á Nývangi í Barcelona í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Robert Lewandowski skoraði þrennu og hrósaði hann þeim pólska í hástert eftir leik.

Aðspurður um Messi, sem Xavi lék með um árabil sem leikmaður Barcelona, sagði hann félagið þurfa að líta fram á veginn þrátt fyrir að sorgin sem hafi fylgt brottför Argentínumannsins dvíni seint.

„Við munum aldrei hætta að syrgja brottför Messi, hann er sá besti í sögunni og allt sem hann gerði var með ólíkindum. Því miður er þeim kafla lokið og nú eru hér aðrir leikmenn komnir til að veita okkur herslumuninn. Það er fullsnemmt að spá fyrir um næstu misseri, en við höfum skapað von um bjartari framtíð,“ segir Spánverjinn.

Eftir markalaust jafntefli í fyrstu umferð spænsku deildarinnar hefur Barcelona unnið þrjá leiki í röð heima fyrir og er með 10 stig í 2. sæti, tveimur á eftir toppliði Real Madrid sem er með fullt hús. Liðið hóf þá tímabilið í Meistaradeildinni vel gegn Plzen í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×