Umfjöllun og viðtöl: Keflavík-Víkingur R. 0-3 | Góður fyrri hálfleikur dugði gegn orkulausum Keflvíkingum

Andri Már Eggertsson skrifar
Víkingur
Vísir/Diego

Víkingur fylgdi 9-0 sigrinum eftir með nokkuð sannfærandi sigri á Keflavík 0-3. Öll mörk Víkings komu í fyrri hálfleik. Þetta var ekki sama flugeldasýningin og í síðasta leik en Íslandsmeistararnir kláruðu verkefnið fagmannlega. 

Upphafsmínúturnar á HS-Orku vellinum voru tíðindalitlar. Bæði lið voru lengi í gang og venju samkvæmt blés í Keflavík sem hafði áhrif.

Fyrsta færið í leiknum kom á 17. mínútu þegar Viktor Örlygur átti skot í stöngina og þaðan datt boltinn beint fyrir Danijel Dejan Djuric sem renndi boltanum í opið markið og kom Víkingi yfir. Upprunalega átti Danijel ekki að byrja inn á en vegna meiðsla Birnis í upphitun byrjaði hann og þakkaði traustið.

Frans Elvarsson gerði sig sekan um klaufalegt brot á Helga Guðjónssyni inn í teig og gestirnir fengu vítaspyrnu. Helgi tók vítið sjálfur og kom Víkingi í 0-2.

Tæplega þremur mínútum seinna bætti Ari Sigurpálsson við þriðja marki Víkings. Ari átti öflugan sprett upp vinstri kantinn kom sér í skotstöðu og smellti boltanum í stöngina og inn.

Staðan í hálfleik var 0-3. Joey Gibbs fékk dauðafæri til að minnka muninn rétt fyrir hálfleik en skot hans í stöngina.

Síðari hálfleikur fór af stað líkt og sá fyrri byrjaði. Liðin sköpuðu sér lítið af færum fyrstu tuttugu mínúturnar.

Adam Árni misnotaði dauðafæri um miðjan síðari hálfleik. Joey Gibbs renndi boltanum inn í teiginn þar var Adam nálægt markinu en Ingvar Jónsson gerði sig breiðan í markinu og Adam skaut beint á hann.

Keflvíkingar fengu nokkur tækifæri til að setja pressu á Víking og minnka muninn en allt kom fyrir ekki og leikurinn endaði 0-3.

Af hverju vann Víkingur?

Víkingar mættu með sjálfstraustið í botni eftir 9-0 sigur í síðasta leik. Víkingur hefur oft spilað betur en í dag. Rokið hafði áhrif en Víkingar skoruðu þrjú mörk á tæplega tuttugu mínútum og héldu sjó allan leikinn. 

Hverjir stóðu upp úr?

Ari Sigurpálsson tók mikið til sín og var öflugur á kantinum. Ari skoraði þriðja mark Víkings sem fór ansi langt með leikinn.

Ingvar Jónsson, markmaður Víkings, átti góðan leik milli stanganna. Ingvar var traustur í sínum aðgerðum og varði tvö dauðafæri afar vel. 

Hvað gekk illa?

Keflvíkingar voru í vandræðum á síðasta þriðjungi. Heimamenn voru að taka mörg skot fyrir utan teig sem setti Víking aldrei í vandræði. 

Eftir að Helgi skoraði annað mark Víkings slökknaði á Keflvíkingum sem voru kærulausir og Víkingur refsaði með því að bæta við þriðja marki tæplega þremur mínútum síðar. 

Hvað gerist næst?

Síðasta umferð fyrir úrslitakeppnina verður spiluð næsta laugardag klukkan 14:00. Víkingur Reykjavík fær KR í heimsókn og Keflavík fer í Úlfarsárdal og mætir Fram.

Arnar: Stundum þarf maður að spila ljótan fótbolta til að vinna

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings, var ánægður með sigurinnVísir/Diego

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var ánægður með 0-3 sigur.

„Fyrri hálfleikur var góður. Það var erfitt að spila við þessar aðstæður. Það var mikið rok og það var erfitt fyrir bæði lið að hemja boltann. Í seinni hálfleik snerist þetta um að sigla þessu heim,“ sagði Arnar og hélt áfram.

„Þetta var erfitt maður vissi aldrei hvar boltinn myndi skoppa eða hvort hann myndi fjúka til hægri eða vinstri. Við misstum leikinn í smá þvælu um miðjan fyrri hálfleik þegar við ætluðum að fara spila tiki taka fótbolta við þessar aðstæður. Við fengum víti þegar við spörkuðum langt og stundum þarf maður að spila ljótan fótbolta til að vinna.“

Arnar var ánægður með að halda markinu hreinu og fannst sínir menn gera vel í að halda forystunni í seinni hálfleik.

„Við þurftum ekki að gera meira í síðari hálfleik. Við vildum bara halda fengnum hlut og sleppa við meiðsli. Keflavík er sterkt lið og ef við hefðum fengið á okkur mark þá hefði leikurinn farið í uppnám og sem betur fer gerðist það ekki,“ sagði Arnar Gunnlaugsson.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira