Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á kynningu á frumvarpi til fjárlaga að hækkun verðbólgu væri áhyggjuefni en samt sé verðbólgan hér á landi ein sú lægsta í Evrópu.
Verðbólgan hefur hækkað gífurlega á heimsvísu en sums staðar í Evrópu er hún komin yfir tuttugu prósent. Samkvæmt samræmdri vísitölu er verðbólgan hér á landi um fimm prósent. Aðeins eitt ríki er með lægri verðbólgu.

Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa versnað hratt, ekki síst vegna hækkunar orkuverðs. Hætta er á að staðan versni enn meira í Evrópu. Í frumvarpinu segir að áhrif hækkunar orkuverðs hafi verið takmörkuð á Íslandi, enda er hlutfall endurnýjanlegrar orku hærra hér.
„Erlendir ferðamenn eru nú jafn margir og fyrir faraldurinn. Útlit er fyrir að í ár verði hagvöxtur á Íslandi einn sá mesti meðal aðildarríkja OECD og verðbólga er hér næstlægst í Evrópu á samræmdan mælikvarða,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Bjarni ræddi verðbólguna í viðtali við fréttastofu að fundi loknum.