Fótbolti

„Við vorum miklu betri“

Atli Arason skrifar
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar, var afar svekkt að hafa tapað á heimavelli gegn Keflavík. Hún telur að heppnin ein hafi ráðið því að Keflavík sótti stigin þrjú.

„Við vorum miklu betri í þessum leik. Það var ömurlegt að fá þetta mark [þriðja mark Keflavíkur] á okkur strax eftir að við skorum. Ég held það hafi átt stóran þátt af því að við töpuðum í dag,“ sagði Ólöf í viðtal við Vísi eftir leik.

„Þetta var bara heppni, ég held það,“ svaraði Ólöf, aðspurð út í fyrri tvö mörk Keflavíkur, áður en hún bætti við.

„Við vorum miklu meira með boltann og sérstaklega í seinni hálfleik. Á öðrum degi hefðum við klárað þennan leik en svona er þetta.“

Annað sæti deildarinnar veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu en Þróttur er nú fjórum stigum á eftir Breiðablik í öðru sæti en Blikar eiga leik til góða á Val annað kvöld.

Þrátt fyrir ósigurinn er Ólöf ekki búinn að gefa drauminn um Meistaradeild Evrópu upp á bátinn. Hún viðurkennir þó að erfitt sé er að vera ekki með örlögin í eigin höndum.

„Þetta er ekki alveg búið, þetta er bara ekki lengur í okkar höndum. Við þurfum að treysta á önnur lið ef við ætlum að ná inn í Meistaradeildina,“ svaraði Ólöf.

Framundan er leikur gegn Stjörnunni sem reynist mikilvægur fyrir framhaldið hjá Þrótturum, ef þær ætla að ná inn í Evrópu. Ólöf er alveg viss hvað Þróttarar þurfa að bæta sig í frá tapinu gegn Keflavík í kvöld.

„Við þurfum að klára færin okkar. Við þurfum að hætta að hugsa svona mikið með boltann og gera bara það sem við gerum alltaf á æfingum. Ef það gengur upp þá klárum við næstu þrjá leiki,“ sagði kokhraust Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar.


Tengdar fréttir

Ólöf: Við eigum séns í Evrópu

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar, fór á kostum í 5-1 sigri Þróttar á ÍBV í Bestu-deild kvenna í kvöld. Ólöf skoraði eitt mark og lagði upp önnur þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×