Getgátur fóru í kjölfarið á flug um mögulegt svindl mannsins sem batt enda á 53 skáka sigurgöngu Carlsen.
Carlsen tapaði viðureign við Hans Niemann, sem varð stórmeistari í fyrra.
Í kjölfarið tilkynnti hinn óviðjafnanlegi Carlsen að hann væri hættur keppni og deildi myndskeiði á Twitter, þar sem knattspyrnuþjálfarinn Jose Mourinho segist ekki geta tjáð sig, þar sem það muni aðeins koma honum í vandræði.
Margir túlkuðu tíst Carlsen á þann veg að þarna væri hann að saka Niemann um svindl en Niemann, sem er 19 ára, hefur tvívegis gerst sekur um svindl í netskák á Chess.com.
Að sögn Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands, sem telur ekki að Niemann hafi svindlað, kom síðastnefndi hingað til lands fyrr á árinu, til að taka þátt í Reykjavíkurskákmótinu.
„Það var virkilega gaman að hafa hann. Hann er svona svolítið skemmtileg týpa, hann er svona „tense“ og ákveðinn og tapaði meðal annars fyrir Jóhanni Hjartarsyni í 26 leikjum. Það var gaman að hafa hann hérna,“ segir Gunnar.
Engin formleg kvörtun hefur verið lögð fram gegn Niemann en fjölmargir hafa stigið fram og segjast efast um að nýliðinn hafi unnið heimsmeistarann á heiðarlegan hátt.
Carlsen var með hvítan og lék sjaldgæfan byrjunarleik. Niemann virtist þó eiga svar við öllum brögðum heimsmeistarans og kom sjálfur á óvart á ögurstundu, með leiknum be6.
Niemann hefur þverneitað að hafa svindlað og segist fyrir tilviljun hafa verið búinn að kynna sér stöðuna sem kom upp í skákinni fyrir einvígið. Það er enda erfitt að svindla við borðið, á móti andstæðingnum og fyrir framan áhorfendur.
Erfitt, en ekki útlokað, segir Gunnar, sem segir menn áður hafa orðið uppvísa að því að fela til að mynda síma á salerninu. Viðlíka uppákomur hafi þó ekki áður átt sér stað meðal fremstu manna í skákheiminum.
En hvernig á Niemann þá að hafa farið að þessu?
Kenningin er sumsé sú að Niemann hafi verið með fjarstýrt unaðstæki ástarlífsins í endaþarminum og vitorðsmaður hans gefið honum upplýsingar um besta leikinn í stöðunni með því að láta tækið titra á fyrirfram ákveðinn hátt.
Vitorðsmaður gæti þannig, ef einbeittur brotavilji er fyrir hendi, setið hvar sem er og matað hinn óheiðarlega skákmann á upplýsingum úr tölvuheila.