Frá þessu er greint á Facebook-síðu Fram en þar segir að námið muni taka um sex ár. Það er því töluvert í að Jónína Hlín klæðist búningi Fram á ný. Þessi öflugi línumaður ætlar sér þó að æfa og spila handbolta ytra. Það mun skýrast nánar þegar fram líða stundir.
Jónína Hlín var hluti af Íslandsmeistaraliði Fram síðasta vor en miklar breytingar urðu á liðinu í sumar. Þær Hildur Þorgeirsdóttir og Stella Sigurðardóttir lögðu skóna á hilluna í sumar, Emma Olson gekk til liðs við þýska félagið Dortmund og þá ríkir mikil óvissa um framtíð Ragnheiðar Júlíusdóttur og Karenar Knútsdóttur.
Það er ljóst að um er að ræða mikið högg fyrir Íslandsmeistara Fram en liðið tapaði með sex marka mun gegn Stjörnunni í fyrstu umferð Olís deildar kvenna.