Samkvæmt því sem Arnar Daði Arnarsson sagði í Handkastinu þurfa dómarar að ná 9,5 í píptesti. Þeir sem ná því ekki geta tekið þolprófið aftur að 4-6 vikum liðnum og þurfa að sýna framfarir á milli prófa.
„Þetta er það sem kallast á góðri íslensku leikþáttur. Ef þú ætlar að vera með einhverjar þolkröfur vertu þá með kröfur,“ sagði Theodór Ingi Pálmason og benti á að það væri enginn mælikvarði á þrek dómara að ná 9,5 í píptesti.
Hann sagði að ef æðstu prestar dómaramála myndu benda á að ekki væri hægt að hafa strangar þolkröfur vegna skorts á mannskap ætti þá bara sleppa að hafa þolkröfur.
„Þá sleppurðu því að vera með svona kröfur. Afsakið, þetta er leikrit. Komiði bara frekar hreint fram og segið: við erum í vandræðum, félögin þurfa að koma meira inn. Þetta stakk í augun,“ sagði Theodór.
Ásgeir Jónsson benti á að félögin þyrftu að gera betur í að búa til dómara. „Við getum þakkað þessum fáu sálum sem nenna að hlusta á tuðið, vælið og öskrin um hverja einustu helgi. Að því sögðu er ég alltaf að bíða eftir átakinu. Þetta er líka félögunum að kenna. Við í félögunum þurfum að gera miklu betur.“
Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér ofan. Umræðan um þolkröfur dómara hefst á 1:15:40