Kristinn vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Vísi í kvöld.
Fimleikasambandið fékk ábendingar um það í sumar, eftir samkvæmi sem haldin voru í kjölfar Norðurlandamóts sem haldið var hér á landi í júlí, að vitni og þar á meðal landsliðsfólk, hefðu séð umræddan þjálfara fara ölvaðan upp í bíl eftir samkvæmin tvö og keyra á brott.
Samkvæmt heimildum Vísis fór í kjölfarið fram skoðun hjá aga- og siðanefnd Fimleikasambandsins. Eftir hana var þjálfarinn ráðinn aftur.
Fimleikafélagið Björk sendi erindi til Fimleikasambandsins og Íþróttasambands Íslands í dag en þar kemur fram að þann 12. júlí í sumar hafi minnst tvö erindi borist til sambandsins vegna ölvunarakstursins. Í nýja erindinu er kallað eftir því að niðurstaða aga- og siðanefndar Fimleikasambandsins um atvikið í sumar yrði gerð opinber.
Á fundi stjórnarinnar í dag, var ákveðið að standa við ráðningu landsliðsþjálfarans og samkvæmt heimildum Vísis sagði Kristinn af sér í kjölfar þess.
Fréttin hefur verið uppfærð.