Fótbolti

Kahn: Erum ekki að leita að nýjum þjálfara

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kahn (t.v.) ásamt Nagelsmann.
Kahn (t.v.) ásamt Nagelsmann. Alex Grimm/Getty Images

Oliver Kahn, framkvæmdastjóri Bayern München, segir framtíð Julians Nagelsmann í þjálfarastöðu karlaliðs félagsins vera örugga. Gengi liðsins hefur verið undir pari í upphafi tímabils.

Bayern tapaði 1-0 fyrir Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni um helgina en eftir sigur í fyrstu þremur deildarleikjum sínum hefur liðið spilað fjóra leiki í röð án þess að fagna sigri. Um var að ræða fyrsta tap liðsins í vetur en jafntefli við Gladbach, Union Berlín og Stuttgart komu í aðdraganda taps helgarinnar.

Bæjarar hafa haft algjöra yfirburði í Þýskalandi síðustu ár og njóta algjörrar yfirburðastöðu fjárhagslega fram yfir önnur lið. Félagið hefur unnið þýsku úrvalsdeildina tíu ár í röð og því er óalgengt að sjá liðið í 5. sæti deildarinnar, líkt og það er eftir tap helgarinnar.

Þrátt fyrir það segir Kahn að staða Nagelsmanns sé traust.

„Við erum ekki að skoða neina aðra þjálfara sem stendur. Við berum fullt traust til Julians. Við þurfum að komast aftur á beinu brautina. Strax og við komumst aftur af stað gegn Leverkusen þurfum við að setja allt á fullt,“ segir Kahn.

Bayern München mætir Bayer Leverkusen í næsta deildarleik sem er ekki fyrr en 30. september sökum landsleikjahlés sem fram undan er. Liðið er með tólf stig í fimmta sæti, fimm stigum frá toppliði Union Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×