Samkeppnin um stöðu örvhentrar skyttu í íslenska landsliðinu er rosaleg en sá sem hefur haft þar vinninginn síðustu misseri er Ómar Ingi Magnússon. Ómar, íþróttamaður ársins 2021, varð markakóngur EM í janúar síðastliðnum og svo valinn besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar í vor þar sem hann varð jafnframt næstmarkahæstur.
Segja má að Ómar sé stærsta ástæða þess að Kristján Örn hefur ekki verið sérlega áberandi með íslenska landsliðinu en sjálfur fagnar Kristján því að samkeppnin um skyttustöðuna sé svona mikil.
„Einmitt þegar ég var valinn besta hægri skyttan í frönsku deildinni þá var Ómar valinn bestur allra í þýsku deildinni. Maður er einhvern veginn alltaf á eftir þessum manni,“ segir Kristján léttur í bragði í samtali við Vísi. „Við erum búnir að fara saman upp öll yngri landsliðin,“ bætir hann við.
„Vorkenni Gumma mjög mikið að þurfa að velja“
Ekki er nóg með að Kristján keppi við besta leikmann bestu landsdeildar heims um stöðu í íslenska landsliðinu heldur getur Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari einnig notað menn á borð við Teit Örn Einarsson, leikmann Flensburg, og Viggó Kristjánsson úr Leipzig.
„Það er auðvitað bara frábært að við séum með svona margar góðar hægri skyttur. Þetta eru ég, Ómar, Viggó og Teitur kannski aðallega núna. Það er alltaf gaman að hafa marga til að velja úr og ég vorkenni Gumma mjög mikið að þurfa að velja fyrir hvert verkefni, því við erum allir helvíti fínir í okkar vinnu,“ segir Kristján.
„Ég held að við höfum aldrei verið með svona marga á hæsta stigi í sömu stöðu í landsliðinu. Óli Stef talaði um það að þegar þeir hefðu verið að vinna silfrið á Ólympíuleikunum þá hefðu þeir verið 8-9 góðir leikmenn sem spiluðu mest, en núna erum við með nokkuð traustan hóp eins og sást á EM þar sem aðrir gátu stigið upp og unnið Frakka jafnvel þó að 5-6 leikmenn dyttu út vegna Covid,“ bendir Kristján á.
Næsta stórmót íslenska landsliðsins er heimsmeistaramótið í janúar, þar sem Ísland leikur í riðli með Portúgal, Ungverjalandi og Suður-Kóreu. Riðillinn er spilaður í Kristianstad í Svíþjóð.