Færi svo að sambærileg lög yrðu sett hér á landi myndi það þýða að þegar kemur að nýbyggingum er allur ferillinn reiknaður út með tilliti til umhverfismála; loftlagsmálin/gróðurhúsaáhrifin, eyðing ósonlagsins, auðlindanotkun og margt fleira.
„Það má segja að ferillinn sé frá vöggu til grafar,“ segir Emilía.
Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um breytingar á húsnæðum, þar á meðal vinnustöðum, vegna umhverfismála og vottana.
Grænt val oftast mögulegt
Að sögn Emilíu er framboð af grænum vörum alltaf að aukast. Hjá Húsasmiðjunni teljast í dag um fjögur þúsund vörur vera grænar, sem þýðir að í flestum tilfellum hefur viðskiptavinurinn val um að kaupa græna vöru.
„Hinn almenni viðskiptavinur er orðinn mun upplýstari um þessi mál og vill fara grænu leiðina og það er okkar að stilla vörunum upp, til dæmis á heimasíðu okkar og í verslunum , þannig að það sé auðveldara að velja umhverfisvænni vörur en þær sem eru það síður,“ segir Emilía og bætir við:
Oft velja viðskiptavinir grænar vörur vegna eiginleika vörunnar og ef til vill óháð umhverfisstimplinum þar sem þessar vörur eru oft endingarbetri, án sterkrar lyktar með skaðlegum rotvarnar- og uppgufunarefnum heldur en þær óvottuðu í sama flokki.“
Þá segir Emilía sumar umhverfisvænar vörur vera komnar sem eflaust þekkjast betur annars staðar en á Íslandi. Hún nefnir gler sem dæmi:
„Gluggarnir okkar með þreföldu gleri skipta miklu máli í orkusparandi lausnum en við myndum eflaust finna meira fyrir þeim ef við byggjum í Evrópu um þessar mundir. En hér heima skipta þeir samt máli fyrir heildarmyndina.“

Margar vottanir
Í gær fjallaði Atvinnulífið um Svansvottaðar endurbætur á vinnustað. Emilía segir vottanir hins vegar vera mun fleiri.
Þær þekktustu í byggingariðnaði eru Svansvottun, BREEM staðallinn, Evrópublómið og Blái engillinn. Vottanirnar eru þó mun fleiri en hér eru nefndar.
„Það eru margir þættir sem horfa þarf til því eins og með Svansvottuðu vörurnar þá vernda þær umhverfið og heilsu fólks, en hafa minni áherslu á að minnka kolefnisfótspor vörunnar,“ nefnir Emilía sem dæmi.
Að sögn Emilíu fór Húsasmiðjan að leggja áherslu á grænar lausnir árið 2007.
„Þá fórum við að kaupa timbur úr sjálfbærum skógum sem er einn stærsti vöruflokkurinn okkar. Langstærsti hluti timbursins er frá vottuðum skógum sem þýðir að þeir ganga ekki of nærri auðlindinni og vernda allt vist- og lífkerfi skógarins.“
Nýjar áskoranir og ný flækjustig
Emilía segir grænni innkaupastefnu auðvitað fylgja ýmiss ný flækjustig sem ekki voru eins mikið til staðar áður.
Til dæmis skipti rekjanleiki vara miklu máli í dag þegar verið er að kaupa og flytja inn grænar vörur.
Þá segir hún grænum vörum fylgja ýmiss pappírsvinna því tryggja þurfi að varan sé fullgild í þau verkefni sem hún er hugsuð fyrir.
Ekki viljum við sitja með fullan lager að vörum sem enginn vill eða getur keypt.
Því þarf að vera gagnsæi og passa upp á alla staðla en þó svo að vara sé vottuð einu sinni þýðir ekki að hún verði það sem eftir er en vottanir eru yfirleitt gefnar út fyrir þrjú til fimm ár í senn og það endurmetið þar sem staðlar og vottanir eru síbreytileg og þarf að uppfylla strangari kröfur með hverju ári.“
Emilía segist nokkuð viss um að geta fullyrt að meirihluti seldra vara til stærstu viðskiptavina Húsasmiðjunnar, verktakageirinn, séu grænar vörur.
„Það er æ oftar krafa frá okkar stærstu viðskiptavinum, verktökunum, að vörurnar séu vottaðar eða leyfilegar í vottuð verkefni en þeir eru yfirleitt með allt á hreinu í þessum efnum enda fer vistvænum verkefnum fjölgandi. Ég held ég geti fullyrt að meirihluti seldra vara séu vörur sem falla undir grænar vörur.“
Þá segir Emilía einnig skipta máli að horfa til orkuskiptanna. Því þau munu breyta miklu varðandi flutning á vörum og hringrásarhagkerfið í heild, sem Emilía segist vona að Ísland fari að taka fastari tökum.
„En þetta er spennandi vettvangur þar sem við erum mikilvægur hlekkur í þessum iðnaði og gerum hvað við getum.“