Fyrir leik dagsins var vitað að sigur Vals myndi fella Aftureldingu sem og að tryggja liðinu sinn annan Íslandsmeistaratitil í röð. Það varð raunin en Valur vann 3-1 sigur og er nú bæði Íslands- og bikarmeistari.
„Ég held að maður ætti að leggja skóna á hilluna ef maður væri orðin þreytt á þessu. Ótrúlega sætt og stolt af liðinu, það er ekkert grín að taka þetta svona tvö ár í röð og mjög langt síðan það var gert síðast hér á Íslandi,“ sagði fyrirliðinn og tók þar undir orð þjálfara liðsins sem nefndi sömu staðreynd í sínu viðtali.
Mist Edvardsdóttir, miðvörður Vals, meiddist illa á hné í fyrri leik Vals og Slavía Prag í umspilinu um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Mist telur nokkuð ljóst að um krossbandsslit sé að ræða en það væru þá hennar fjórðu á ferlinum.
„Það var gríðarlega mikið sjokk að missa Mist. Hún er mjög mikilvægur hlekkur innan vallar sem utan hjá okkur og við ákváðum að nálgast þennan leik þannig í dag að við værum að gera þetta fyrir hana. Hún er búin að vera einn af okkar bestu leikmönnum í sumar og við söknum hennar mikið en þó gleðiefni að við séum að fá Lillý [Rut Hlynsdóttir] til baka. En ótrúlega leiðinlegt að það gerist á kostnað Mistar. Við söknum hennar mikið og ákveðnar í að klára þetta fyrir hana.“
Um leik dagsins og framhaldið
„Mér fannst leikurinn gæðalega séð ekki upp á marga fiska en bikar undir og þægilegt að fara inn í síðasta leikinn og þurfa ekki að vinna hann, þó við ætlum að sjálfsögðu að fara inn í hann til að vinna.“
„Við erum að fara út í fyrramálið og eigum erfiðan leik við Slavia í miðri viku og erum að koma heim tveimur dögum fyrir leikinn á laugardaginn svo það er alveg gott að vera búnar að tryggja þetta fyrir þann leik. Að þurfa ekki að fara vera inn í óþægilegar aðstæður til að klára titilinn þá svo við erum mjög sáttar að klára þetta í dag,“ sagði fyrirliði Íslandsmeistara Vals að lokum.