Erlent

Tugir sagðir látnir eftir að Ian gekk yfir Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Skemmdirnar urðu sérstaklega miklar í Fort Myers í Flórida.
Skemmdirnar urðu sérstaklega miklar í Fort Myers í Flórida. AP/Rebecca Blackwell

Björgunarstörf er enn yfirstandandi í Flórída eftir að fellibylurinn Ian olli þar gífurlegu tjóni og mannskaða. Vitað er til þess að tugir hafi dáið vegna fellibylsins og þar af flestir í Flórída en enn er verið að leita í rústunum sem Ian skildi eftir sig.

Fellibylurinn fór einnig yfir Suður-Karólínu, þar sem verið er að meta skaðann sem hann olli þar. Fyrst fór Ian þó yfir Kúbu þar sem hann skildi eftir sig mikla eyðileggingu og nokkur dauðsföll.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er búist við því að Ian fari næst yfir Norður-Karólínu, Virginíu og svo New York en hann hefur misst mikinn kraft og er ekki líklegur til að valda miklum skaða. Honum mun þó fylgja mikil rigning.

Sjá einnig: Fellibylurinn í myndskeiðum - Ian skilur eftir sig mikla eyðileggingu í Flórída

New York Times segir minnst 35 hafa dáið í Lee-sýslu í Flórída en þar er bærinn Fort Myers og Ian skildi eftir sig mikla eyðileggingu þar. Margir íbúar ríkisins eru án hreins drykkjarvatns og rafmagns vegna fellibylsins.

Enn eru mikil flóð í Flórída og er búist við því að vatnið muni ekki sjatna fyrr en í næstu viku.

Wall Street Journal sagði frá því í gær að yfirvöld á Kúbu hefðu sent Bandaríkjamönnum beiðni um aðstoð vegna eyðileggingarinnar sem Ian skildi eftir sig þar. Slíkar beiðnir eru sjaldgæfar en verið er að skoða hve mikla aðstoð íbúar Kúbu þurfa, samkvæmt gögnum sem blaðamenn WSJ hafa séð.

Minnst tveir dóu þar og eyjan er enn rafmagnslaus.

Þá hefur efnahagsástandið á Kúbu versnað töluvert að undanförnum og mun það ekki hafa verið verra í þrjá áratugi.


Tengdar fréttir

Ian gæti orðið sá mann­skæðasti í sögu Flórída

Fellibylurinn Ian, sem gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum í gær, hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar og óttast er að hann sé mannskæðasti fellibylur í sögu Flórída. Íbúðarhús eru víða gjörónýt, þak fauk af spítala, vegir skemmdust og brýr hrundu. 

Tvær milljónir án rafmagns og fólk innlyksa eftir Ian

Fjöldi fólks er innlyksa í húsum sínum vegna flóða og tvær milljónir manna eru án rafmagns á suðvestanverðum Flórídaskaga í Bandaríkjunum eftir að fellibylurinn Ian gekk þar yfir í nótt. Fellibylurinn er einn sá öflugasti sem gengið hefur á land í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×