Mannréttindasamtök áætla að á annað hundrað manns hafi látist í mótmælum víða um Íran í kjölfar þess að Mahsa Amini, 22 ára gömul kona, lést í haldi siðgæðislögreglunnar eftir að útsendarar hennar stöðvuðu hana fyrir að fylgja ekki ströngum reglum um slæðunotkun kvenna 13. september.
Khamenei tjáði sig í fyrsta skipti um mótmælin í dag. Kallaði hann þau „óeirðir“ og sakaði erkióvini Írans og bandamenn þeirra um að „hanna“ þau, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hvatti leiðtoginn lögreglu til að búa sig undir frekari mótmæli.
Konur hafa verið fremstar í flokki í mótmælunum. Margar þeirra hafa tekið af sér höfuðslæður eða brennt þær og kyrjað slagorð um „dauða einræðisherrans“ Khamenei. Mótmælin eru sögð ein mesta ógn við klerkastjórnina í fleiri ár.
Í ræðu við útskrift lögreglu- og hermanna sagði æðsti leiðtoginn að dauði Amini hefði „brotið hjörtu okkar“.
„En það sem er ekki eðlilegt er að sumt fólk hefur, án sannana eða rannsóknar, gert göturnar hættulegar, brennt Kóraninn, fjarlægt höfuðslæður af huldum konum og kveikt í moskum og bílum,“ sagði Khamenei.
Bandaríkin og Ísrael stæðu að uppþotunum vegna þess að ríkin þyldu ekki hversu sterkt Íran væri að verða á öllum sviðum.