Fótbolti

Xabi Alonso að taka við Leverkusen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xabi Alonso er að fá sitt fyrsta aðalþjálfarastarf.
Xabi Alonso er að fá sitt fyrsta aðalþjálfarastarf. getty/Ion Alcoba

Xabi Alonso, fyrrverandi leikmaður Liverpool, Real Madrid og fleiri liða, mun að öllum líkindum verða næsti knattspyrnustjóri Bayer Leverkusen.

Ítalska fótboltavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá því á Twitter að Leverkusen ætli að reka Gerardo Seoane og ráða Alonso sem eftirmann hans.

Leverkusen hefur gengið bölvanlega á tímabilinu og er í næstneðsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. Kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum Leverkusen virðist svo hafa verið tap liðsins fyrir Porto í Meistaradeild Evrópu í gær.

Alonso hætti sem þjálfari varaliðs Real Sociedad í vor eftir þriggja ára starf. Áður þjálfaði hann drengjalið Real Madrid.

Alonso, sem er fertugur, átti afar farsælan feril og vann meðal annars Meistaradeildina með Liverpool og Real Madrid og varð tvívegis Evrópumeistari og einu sinni heimsmeistari með spænska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×