Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Valur 3-2 | Danijel Djuric hetja Víkings í endurkomusigri

Andri Már Eggertsson skrifar
Danijel Djuric kom inn á og skoraði tvö mörk
Danijel Djuric kom inn á og skoraði tvö mörk Vísir/Vilhelm

Víkingur Reykjavík vann ótrúlegan endurkomu sigur á Val 3-2. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, gerði fjórfalda breytingu sem var vendipunkturinn í leiknum og Víkingur Reykjavík gekk á lagið sem skilaði þremur mörkum.

Færin voru ekki mörg fyrstu tuttugu mínúturnar. Valsmenn reyndu mikið af fyrirgjöfum inn í teig sem skilaði ekki miklu. Bestu færi Víkings komu upp úr skyndisóknum og Frederik Schram, markmaður Vals, þurfti tvisvar að hafa fyrir því að verja boltann.

Frederik Schram í baráttunniVísir/Vilhelm

Jesper Juelsgård braut ísinn á 29. mínútu. Heiðar Ægisson fékk boltann á hægri kantinum þar sem Heiðar var fljótur að koma boltanum fyrir markið þar sem Jesper Juelsgård var mættur inn í teig og hann skoraði með hægri fæti sem er langt frá því að vera algengt.

Rétt áður en flautað var til hálfleiks tapaði Oliver Ekroth boltanum klaufalega inn í eigin vítateig þar sem Sigurður Egill vann af honum boltann og gaf á Birki Heimisson sem tók skot sem fór milli fóta Júlíusar Magnússonar og inn. Þetta var það síðasta sem gerðist í fyrri hálfleik og Valur var tveimur mörkum yfir. 

Valsarar fagna öðru marki sínuVísir/Vilhelm

Tveimur mörkum undir byrjaði Víkingur síðari hálfleik betur. Bæði Logi Tómasson og Ari Sigurpálsson fengu færi á fyrsta korteri síðari hálfleiks til að minnka muninn en Frederik Schram var á tánum og sá við öllu.

Eftir tæplega klukkutíma leik sá Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, enga aðra lausn en að hrista upp í sínu liði með fjórum skiptingum á einu bretti.

Það var hart barist í leik kvöldsinsVísir/Vilhelm

Danijel Djuric sem kom inn á sem varamaður og minnkaði muninn þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Pablo Punyed renndi boltanum á Danijel Djuric sem átti góða afgreiðslu hægra megin í teignum.

Skiptingar Arnars héldu áfram að gefa því Nikolaj Hansen jafnaði leikinn á 84. mínútu. Arnór Borg Guðjohnsen kom boltanum fyrir markið þar sem refurinn Nikolaj Hansen mætti fyrstur á boltann og jafnaði leikinn.

Danijel Djuric var allt í öllu eftir að hann kom inn á. Tæplega tveimur mínútum eftir jöfnunarmark Víkings gerði hann sigurmarkið og tryggði Víkingi 3-2 sigur á Val.

Danijel Djuric að fagna marki sínuVísir/Vilhelm

Af hverju vann Víkingur?

Valur var tveimur mörkum yfir í hálfleik og var betri aðilinn alveg þangað til Arnar Gunnlaugsson gerði fjórfalda breytingu sem var vendipunkturinn í leiknum.

Víkingur Reykjavík náði í rafmagnsgítarinn eftir skiptingarnar og gerði þrjú mörk þar sem allir leikmennirnir sem komu inn á tóku þátt í mörkunum.

Hverjir stóðu upp úr?

Danijel Djuric breytti leiknum þegar hann kom inn á sem varamaður. Hann gerði bæði mikilvæga þriðja markið sem kom Víkingi á bragðið. Danijel Djuric var síðan ekki hættur en hann gerði einnig sigurmarkið.

Það er hægt að hrósa öllum sem komu inn á hjá Víkingi. Nikolaj Hansen jafnaði leikinn þar sem Arnór Borg átti stoðsendinguna. Í þriðja marki Víkings sem Djuric skoraði átti Viktor Örlygur Andrason stoðsendinguna. En allir þessir fjórir leikmenn komu inn á sem varamenn á 62. mínútu.

Hvað gekk illa?

Eftir frábæra byrjun þar sem Valur var tveimur mörkum yfir í hálfleik fór allt til fjandans á 70. mínútu þegar Víkingur minnkaði muninn í 1-2. Víkingur komst á bragðið og sótti nær látlaust að marki Vals sem lagðist niður og gerði lítið sem ekkert til að stöðva Víking.

Oliver Ekroth gaf tapaði boltanum klaufalega í öðru marki Vals og gaf gestunum markið á silfurfati.

Hvað gerist næst?

Á sunnudaginn fer Valur á Meistaravelli og mætir KR klukkan 13:00.

Á mánudaginn mætast Stjarnan og Víkingur Reykjavík klukkan 19:15.

Ólafur: Víkingur var með betri leikmenn á bekknum

Það var létt yfir Ólafi Jóhannessyni og Helga Sigurðssyni í fyrri hálfleikVísir/Vilhelm

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var svekktur með tap kvöldsins.

„Ég held að Víkingur sé með fleiri betri leikmenn en við. Þeir gátu sett góða leikmenn inn á og það breytti leiknum,“ sagði Ólafur Jóhannesson aðspurður hvort Víkingur vildi þennan sigur meira.

Valur byrjaði leikinn frábærlega og var tveimur mörkum yfir í hálfleik.

„Mér fannst við spila fínan leik í 70 mínútur. Við vorum fínir í fyrri hálfleik þar sem við héldum boltanum og pressuðum þá vel.“

Ólafur vildi ekki segja að um beint þreytumerki hafi gert útslagið heldur var Víkingur með betri leikmenn á bekknum.

„Eins og ég sagði Víkingur átti betri leikmenn á bekknum sem breytti leiknum,“ sagði Ólafur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira