Rússar eru víðast hvar á undanhaldi í austur- og suður Úkraínu þar sem Úkraínumenn hafa náð að frelsa tugi þorpa og bæja. Rússar halda þó áfram stórskotaliðs- og eldflaugaárásum sínum og skutu til að mynda sjö eldflaugum að borginni Zaporizhzhia í dag þar sem einn maður féll og miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsum. Fimmta hæð í fjölbýlishúsi er horfin og fjöldi fólks grófst undir rústum hússins.

Oleksand Starukh héraðsstjóri í Zaporizhzhia segir íbúa fjölbýlishúss hafa verið í fasta svefni þegar tvær efstu hæðirnar hafi nánast verið þurrkaðar út í eldlflauagaárás Rússa.
„Óvinurinn fremur hryðjuverk gegn friðsömum íbúum. Við höldum okkar striki og munum sigra. Úkraína verður sameinuð,“ segir héraðsstjórinn.
Rússlandsforseti reyndi að halda andliti á fjarfundum með forystufólki kennara á degi kennara annars vegar og embættismönnum um efnahagsmál hins vegar í dag. Hann virtist ráðvilltur þegar hann ræddi héruðin fjögur sem hann þykist hafa innlimað í Rússland.

„Við vinnum út frá þeirri forsendu að jafnvægi náist svo við getum þróað þessi héruð smám saman og hjálpað ykkar að byggja upp allt landið,“ sagði Putin við kennara sem virtust hafa áhyggjur af uppbyggingu kennslu á hernumdu svæðunum.
Á sama tíma og Putin gerði lítið úr refsiaðgerðum Vesturlanda komu leiðtogar fjörutíu og fjögurra lýðræðisríkja í Evrópu saman í Prag í Tékklandi í dag fyrir frumkvæði Emmanuel Macrons forseta Frakklands. Hann vill koma á laggirnar einhvers konar Stjórnmálabandalagi Evrópuríkja til að efla samvinnu í öryggis- og efnahagsmálum.

„Skilaboðin eru um einingu í Evrópu í þágu allra Evrópuríkja hvort sem þau eru aðilar að ESB eða ekki. Þetta snýst um að byggja upp samheldni með því markmiði að kynna okkur stöðu mála í álfunni og hvernig hún hefur áhrif á stöðu ríkjanna. Við viljum byggja upp sameiginlega stefnu með skilvirku samtali. Slíkt samstarf var ekki fyrir hendi áður og gat leitt til sundurlyndis," sagði Macron í Prag í dag.
Innrás Rússa kallar á aukna samstöðu Evrópuríkja
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir innrás Rússa í Úkraínu kalla á aukið og annars konar samstarf Evrópuríkja. Mikilvægt væri að leiðtogar ríkjanna ræddu hreinskipt um stjórnmál álfunnar.

Forsætisráðherra segir fundinn í Prag óvenjulegan þar sem saman hafi komið leiðtogar allra evrópuríkja nema Rússlands og Hvítarússlands. Leiðtogarnir hafi setið saman og rætt stjórnmál og ekki sent frá sér neina sameiginlega yfirlýsingu að fundi loknum.
„Þannig að það voru mjög opnar umræður og ég myndi segja að þetta skili aukinni samstaða Evópuríkja. Það er auðvitað mjög mikilvægt á þessum tímum á meðan þetta innrásarstríð stendur að hálfu Rússa,” segir Katrín.
Macron Frakklandsforseti hafði frumkvæði að þessum fundi. Hann sagði í vikunni að Evrópusambandið gæti ekki verið eini vettvanginn fyrir pólitískt samstarf Evrópuríkja. Þá dregur þetta Breta að borðinu sem hafa verið utanveltu í Evrópu eftir að þeir gengu formlega úr Evrópusambandinu.

Þarf Evrópa einn vettvanginn í viðbót til að sameina krafta sína?
„Það voru gagnrýnisraddirnar fyrir þennan fund að þetta væri kannski óþarfi. En auðvitað er það svo að Evrópusambandið er í mjög þéttu innra samstarfi. Við hittumst á vettvangi Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og svo framvegis. En hér er einhvern veginn verið að reyna að hleypa dálítilli pólitík inn í samtalið. Víkka það út,” segir forsætisráðherra.
Íslendingar væru í góðri stöðu í þeirri orkukreppu sem nú ríkti í Evrópu vegna stríðsins. En töluvert hafi verið rætt um uppbyggingu nýrra sameiginlegra innviða í orkumálum.
Er þetta eitthvað tengt Úkraínu. Rædduð þið málefni Úkraínu?
„Zelenskyy ávarpaði okkur í gegnum fjarfundarbúnað. Að sjálfsögðu er það yfir og alltumlykjandi og ég er ekki viss um að þessi vettvangur hefði orðið til nema út af innrásinni í Úkraínu. Út af þörfinni á samstöðu og út af því að aðstæður þessara ríkja eru ólíkar,” segir Katrín Jakobsdóttir.