Körfubolti

ÍR teflir fram dæmdum ofbeldismanni

Sindri Sverrisson skrifar
Tylan Birts var stigahæstur ÍR í sigrinum gegn Njarðvík í gær. Hann skoraði 23 stig, tók 14 fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Tylan Birts var stigahæstur ÍR í sigrinum gegn Njarðvík í gær. Hann skoraði 23 stig, tók 14 fráköst og gaf sex stoðsendingar. VÍSIR/BÁRA

Körfuknattleikslið ÍR leikur með Bandaríkjamanninn Tylan Jamon Birts innanborðs í vetur. Hann var ákærður fyrir nauðgun árið 2016 en játaði á sig líkamsárás.

ÍR vann óvæntan sigur gegn Njarðvík í fyrstu umferð Subway-deildar karla í gærkvöld. Birts var þar í aðalhlutverki í sínum fyrsta leik á Íslandi, eftir að hafa síðast spilað sem atvinnumaður í Austurríki og þar áður í Georgíu.

ÍR hefur hlotið gagnrýni fyrir að tefla fram leikmanni sem dæmdur hefur verið vegna kynferðisglæps.

Þegar Birts var 19 ára gamall var hann einn þriggja leikmanna Lindenwood-háskólaliðsins í Missouri sem ákærðir voru vegna nauðgunarmáls. Voru þeir þá allir settir til hliðar hjá liðinu.

Samkvæmt bandarískum miðlum var Birts gefið að sök að hafa nauðgað konu sem liðsfélagi hans, Ermias Tesfia Nega, hafði haft samþykkt samræði við. Átti Nega að hafa yfirgefið herbergið, sem var í íbúð þeirra Birts, og sagt að konan væri „tilbúin“ í kynlíf.

Birts og þriðji maðurinn, Bradley Newman Jr., hafi því næst farið inn og Birts haft samræði við konuna á meðan að Newman fylgdist með. Samkvæmt ákærunni mun konan svo hafa áttað sig á því þegar hún kveikti ljósin að þarna var Birts á ferð en ekki Nega.

Hlaut skilorðsbundinn dóm og þurfti að greiða 120 dali

Birts samdi árið 2017 um að játa á sig líkamsárás (e. Misdemeanour Assault), eins og hún er skilgreind í lögum Missouri-fylkis í Bandaríkjunum, en slapp við nauðgunardóm.

Hann hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm og þurfti að sinna 50 tíma samfélagsþjónustu auk þess að greiða 120 Bandaríkjadali vegna lífsýnatöku til sönnunar í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×