Handbolti

Þórir segir eðli­legt að lykil­kona hans setji hand­boltann einu sinni í annað sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veronica Kristiansen sést með liðsfélögum sínum í norska landsliðinu þeim Camilla Herremm, Marta Tomac og Stine Bredal Oftedal.
Veronica Kristiansen sést með liðsfélögum sínum í norska landsliðinu þeim Camilla Herremm, Marta Tomac og Stine Bredal Oftedal. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, verður án lykilmanns í titilvörninni á Evrópumótinu í handbolta í næsta mánuði en í gær var það gert opinbert að Veronica Kristiansen verður ekki með norska landsliðinu að þessu sinni.

Norska handboltasambandið staðfesti fjarveru Veronicu í fréttatilkynningu en ástæðan er að hún þarf að leita sér læknisaðstoðar á þessum tíma. Það er ekki farið nánar í það hvers konar læknismeðferð sé að ræða.

Það er þó nefnt að möguleiki að óvissa um lengd meðferðarinnar geti opnað dyrnar fyrir því að Veronica geti spilað eitthvað með landsliðinu á Evrópumótinu.

Þórir tjáir sig um fjarveru leikmannsins í fréttatilkynningu norska sambandsins. „Veronica hefur okkar fulla stuðning í forgangsröðun sinni. Það er eðlilegt að íþróttafólk setji íþróttirnar stundum í annað sætið. Ef „Vikki“ verður tilbúinn til að spila með á einhverjum tímapunkti á mótinu og liðið þarf á henni að halda þá munum við að sjálfsögðu íhuga það að kalla á hana. Við höldum því dyrunum opnum fyrir hana,“ sagði Þórir.

Kristiansen er 32 ára vinstri skytta sem er leikmaður Győri í Ungverjalandi og varð meistari með liðinu síðasta vor. Hún hefur spilað 171 landsleik og skorað 553 mörk fyrir Noreg frá árinu 2013 og unnið fimm gullverðlaun með liðinu á stórmótum þar af þrjá Evrópumeistaratitla.

„Það er allt í góðu lagi með mig en núna varð það nauðsynlegt að setja þetta ofar í forgangsröðinni en Evrópumótið í handbolta. Ég er tilbúin að snúa aftur í landsliðið og hef enn mikinn metnað fyrir því að spila fyrir landsliðið,“ sagði Veronica Kristiansen.

Norska landsliðið mun sakna Veronicu og þá ekki síst varnarlega þar sem hún hefur ávallt spilað stórt hlutverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×