Innlent

Vonast til að hægt verði að lægja öldurnar fyrir kjara­við­ræður

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnarson er forseti ASÍ og Rafiðnaðarsambandsins.
Kristján Þórður Snæbjarnarson er forseti ASÍ og Rafiðnaðarsambandsins. Vísir/Vilhelm

Búast má við hörðum fram­boðs­slag á þingi Al­þýðu­sam­bandsins sem hófst í dag. Tvær fylkingar takast á en settur for­seti sam­bandsins vonast til að hægt verði að sætta hópana í mikil­vægum mál­efnum og marka stefnu fyrir komandi kjara­við­ræður.

Þingið var sett klukkan tíu en það stendur yfir í þrjá daga. Kosningar í for­seta­em­bætti sam­bandsins fara fram á mið­viku­daginn en tveir hafa gefið kost á sér í em­bættið; Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, og Ólöf Helga Adolfs­dóttir, ritari stjórnar Eflingar.

Ragnar Þór er formaður VR.vísir/vilhelm

„Ég geri ráð fyrir að þetta verði bara góð bar­átta og verði bara vel komið fram vona ég,“ segir Kristján Þórður Snæ­bjarnar­son.

Hann tók við for­seta­em­bætti ASÍ eftir að Drífa Snæ­dal sagði af sér í sumar og gefur nú kost á sér í em­bætti fyrsta vara­for­seta.

Hann vill ekki gefa upp hvort hann styðji Ragnar eða Ólöfu en segir:

„Ég þekki Ragnar og hef unnið með Ragnari á undan­förum árum. Það sam­starf hefur gengið vel. Ólöfu þekki ég nú minna, eða þekki hana lítið. En þetta er auð­vitað bara verk­efni þingsins að vinna með og á­kveða,“ segir Kristján Þórður.

Ólöf Helga Adolfsdóttir starfaði sem varaformaður Eflingar þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér síðasta haust. Hún tapaði svo í formannsslag Eflingar fyrir Sólveigu síðasta vor.Stöð 2/Egill

Gustað hefur um verka­lýðs­hreyfinguna síðasta rúma árið en segja má að deilur tveggja fylkinga innan ASÍ hafi náð há­marki þegar Drífa sagði af sér.

Kristján vonar að hægt verði að lægja öldurnar því mikil­væg verk­efni séu fram undan á þinginu, önnur en fram­boðs­slagurinn.

„Við erum að ræða hús­næðis­mál og vel­ferð, förum yfir líf­eyris­mál, efna­hags­mál og skatta. Og síðan auð­vitað eru kjara­málin og vinnu­markaðurinn stóru þættirnir í því sem við munum ræða,“ segir Kristján Þórður.

Komandi kjara­við­ræður eru þar í brenni­depli.

„Auð­vitað vonast maður til þess að í kjöl­far þings að okkur takist að sam­þætta hópinn svoldið meira og auka sam­starfið við gerð kjara­samninganna,“ segir Kristján Þórður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×