Innlent

Höfuðið fannst fyrir til­viljun í heima­húsi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Höfuð lágmyndar af þjóðskáldinu Þorsteini Valdimarssyni er komið í öruggt skjól Skógræktarinnar.
Höfuð lágmyndar af þjóðskáldinu Þorsteini Valdimarssyni er komið í öruggt skjól Skógræktarinnar. Mynd/Skógræktin.

Höfuð brjóstmyndar skáldsins Þorsteins Valdimarssonar, sem hvarf úr Hallormsstaðaskógi í sumar er komið í leitirnar. Lögregla fann höfuðið fyrir tilviljun í heimahúsi á Egilsstöðum.

Þetta kemur fram á vef Skógræktarinnar. Forsaga málsins er sú að höfuð brjóstmyndarinnar, sem er af einu af þekktari ljóðskáldum þjóðarinnar, Þorsteini Valdimarssyni, var brotin af stalli sínum og numin á brott.

Brjóstmyndin hafði staðið í Trjásafninu í Hallormsstaðaskógi í áratugi.

Á vef Skógræktarinnar segir að töluverð leit hafi verið gerð í skóginum og í grennd við stall brjóstmyndarinnar, án árangurs. Málið var kært til lögreglu sem hafði þó ekki orðið ágengt í rannsókn á hvarfi höfuðsins, þar til nú.

„[R]annsókn hennar hafði engan árangur borið þar til fyrir helgi þegar lögreglumenn voru staddir í heimahúsi á Egilsstöðum vegna allt annars verkefnis. Þar sá vökult auga lögreglumanns listaverkið sem horfið hefur verið í slétta tvo mánuði. Íbúi þar kvaðst hafa fundið höfuðið í runna,“ segir á veg Skógræktarinnar.

Þar kemur einnig fram að lögregla hafi gefið boltann til Skógræktarinnar og að ekki verði aðhafst meira af hálfu lögreglu nema Skógræktin leggi fram kæru.

„Í fljótu bragði telur lögregla ekki að listaverkið hafi verið fjarlægt til að koma málminum úr því í verð því ef svo væri hefði það trúlega aldrei komið í leitirnar,“ segir á vef Skógræktarinnar.

Unnið verður nú að því að koma höfuði brjóstmyndarinnar af Þorsteini aftur á sinn stað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×