Fótbolti

Írsku stelpurnar hneyksluðu og særðu marga þegar þær fögnuðu sæti á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Írsku landsliðskonurnar fagna hér sigri á Skotum og um leið sæti á HM.
Írsku landsliðskonurnar fagna hér sigri á Skotum og um leið sæti á HM. Getty/Ross MacDonald

Írska kvennlandsliðiðinu í fótbolta tókst það á þriðjudagskvöldið sem okkar stelpum tókst ekki. Írland tryggði sér þá sæti á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi með sigri á Skotum.

Írsku stelpurnar höfðu aldrei áður komist á stórmót og voru kannski næstar því þegar þær töpuðu í umspili á móti Íslandi fyrir EM 2008.

Að þessu sinni kláruðu þær dæmið en Amber Barrett, leikmaður Turbine Potsdam í Þýskalandi, skoraði eina mark leiksins.

Írsku stelpurnar voru náttúrulega mjög kátar í leikslok eftir þetta sögulega skref liðsins en þær hneyksluðu og særðu aftur á móti marga í heimalandi sínu og víðar með vali sínu á sigursöng í fagnaðarlátunum inn í klefa eftir leik.

Bæði þjálfari liðsins, Vera Pauw, sem og knattspyrnusambandið hefur nú beðist afsökunar á hegðun leikmannanna. Myndband sem fór á samfélagsmiðla sýndi leikmennina syngja „Ooh ah, up the 'RA“ lagið sem er þekktur stuðningssöngur við Írska lýðveldisherinn, IRA.

Írski lýðveldisherinn barðist á sínum tíma fyrir því að frelsa Norður-Írland frá Bretlandi og beitti öllum ráðum til þess eins og sprengitilræðum og öðrum hryðjuverkum.

„Það mikilvægasta fyrir okkar lið er að bera virðingu fyrir fólkinu í kringum okkur. Við höfum með þess háttalagi okkar sært fólk og það er engin afsökun að við höfum ekki ætlað okkur það. Það er engin afsökun fyrir okkur að við höfum verið að fagna saman,“ sagði hinn hollenski þjálfari liðsins Vera Pauw.

Pauw sagði jafnframt að leikmennirnir væru eyðilagðir yfir þessu og sú sem deildi myndbandinu væri grátandi inn á herbergi því hún hafi ekki ætlað sér að særa neinn.

Vera Pauw var ekki í búningsklefanum þegar leikmenn sungu lagið og sem útlendingur var hún heldur ekki með á hreinu hvaða lag þetta var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×