Skoðun

Geð­heil­brigðis­­starfs­­maður í lög­reglu­bíl

Eva Sjöfn Helgadóttir skrifar

Undanfarið hefur umræða um geðheilbrigðismál orðið umfangsmeiri í samfélaginu og ákall er eftir auknu aðgengi að faglegri þjónustu.

Í því samhengi er mikilvægt að efla samstarf milli geðheilbrigðiskerfisins og lögreglunnar, eins og hefur þegar gefist vel víðsvegar um heiminn.

Reynsla annarra landa

Árið 1978 hóf lögreglan í Bresku Kólumbíu í Kanada samstarf við hjúkrunarfræðinga í útköllum sem tengdust geðrænum vanda. Síðan þá hefur samstarf lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks verið ein af grunnstoðum útkallsþjónustu í fylkinu.

Frá árinu 1989 hefur svokallað almannaöryggisteymi, kallað CAHOOTS, verið starfrækt í Oregon-fylki Bandaríkjanna, og önnur teymi víðsvegar um Bandaríkin hafa verið stofnsett í kjölfarið.

Verkefni teymanna eru margvísleg, en lögreglan kemur bara við sögu ef útkallið varðar ofbeldisfullan einstakling. Reynslan sýnir að aðeins í örfáum tilfellum þarf að kalla á aðstoð lögreglu.

Í Svíþjóð hefur til að mynda verið komið á fót sérstökum geðheilbrigðissjúkrabíl sem hefur starfað frá árinu 2015.

Neyðargeðheilbrigðisteymi á Íslandi

Í vikunni sem leið lagði ég ásamt meðflutningsfólki mínu þingsályktunartillögu um að koma á fót neyðargeðheilbrigðisteymi og tryggja því fjármögnun.

Teymið yrði skipað heilbrigðisstarfsfólki með sérþekkingu á sviði geðheilbrigðis, vímuefnavanda og skaðaminnkunar, og það myndi sinna neyðarútköllum í tilvikum þar sem einstaklingar á vettvangi eiga við geðrænan vanda og/eða vímuefnavanda að stríða.

Á sama tíma þurfum við að valdefla viðbragðsaðila hjá neyðarlínunni og lögreglu með fræðslu svo þau geti metið hvenær þörf sé á aðstoð frá heilbrigðisstarfsfólki í útköllum.

Aukin lífsgæði

Þegar þessir hópar vinna vel saman bætir það lífsgæði allra. Fólk með geðsjúkdóma á auðveldara með að fá geðheilbrigðisþjónustu, lögreglan upplifir færri áföll og minni streitu og geðheilbrigðisstarfsmenn hafa tækifæri til að hafa enn meiri, bein og jákvæð áhrif á samfélagið.

Það er mikilvægt að byggja brýr milli löggæslu og heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega tryggja það að einstaklingar fái rétta þjónustu hverju sinni.

Höfundur er varaþingmaður Pírata og sálfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×