Fótbolti

Totti og fyrrverandi konan hans stálu af hvort öðru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Francesco Totti og Ilary Blasi á giftingardaginn 2005.
Francesco Totti og Ilary Blasi á giftingardaginn 2005. getty/Massimo Insabato

Skilnaður Francescos Totti og Ilary Blasi virðist ætla að vera ansi ljótur en ásakanir um þjófnað ganga milli hjónanna fyrrverandi.

Í sumar greindi Totti frá því að þau Blasi væru skilin eftir sautján ára hjónaband. Þau eiga þrjú börn saman.

Í síðasta mánuði sagði Totti að hjónabandið hefði liðast í sundur vegna þess að Blasi studdi hann ekki þegar hann hætti í fótbolta og þegar faðir hans lést af völdum kórónuveirunnar og að hún hafi haldið framhjá honum.

Ekki nóg með það heldur hafa borist fréttir af því að Blasi hafi stolið Rolex úrum af Totti. Hann hefur svo viðurkennt að hafa tekið handtöskur hennar og skó og ætlað að skipta á hlutunum áður en þau mætast fyrst í réttarsal.

Totti hafði vonast til þess að þau Blasi þyrftu ekki að mæta í réttarsal en það gekk ekki eftir og fyrsta fyrirtakan er í dag.

Hinn 46 ára Totti er kominn með nýja kærustu og ýjað hefur verið að því hann hafi haldið framhjá Blasi. Hann neitar því staðfastlega.

Totti lagði skóna á hilluna fyrir fimm árum. Hann er leikja- og markahæsti leikmaður í sögu Roma og almennt talinn besti leikmaður í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×