Skoðun

Stöndum vörð um hags­muni sjúk­linga

Halldóra Mogensen skrifar

Öll getum við átt í hættu á að veikjast einhverntímann á lífsleiðinni. Alvarleg veikindi koma fólki oftast algjörlega í opna skjöldu. Á einu augnabliki umturnast líf fólks og ekki er óalgengt að samhliða sæti áherslur, lífsskoðanir og framtíðarsýn fólks endurskoðun.

Að ná bata er vegferð sem krefst fullrar athygli fólks. Það skiptir miklu máli að þegar við veikjumst höfum við fullt svigrúm til að setja alla okkar orku og tíma í að hlúa að okkur sjálfum og að ástvinum okkar.

En þegar við veikjumst erum við sett í ákveðna stöðu innan samfélagsins – stöðu sjúklings. Þessi staða getur verið miserfið fyrir fólk. Eðlilega er fólk með misgott bakland og misgóða þekkingu á réttindum sínum og því hvernig þjónustukerfin okkar virka.

Allskonar ágreiningar geta sprottið upp innan heilbrigðiskerfisins sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt en það sem er hins vegar óeðlilegt er að sjúklingar eigi sér engan málsvara þegar ágreiningur kemur upp.

Sjúklingurinn er settur í þá stöðu að gæta sjálfur eigin hagsmuna. Afleiðing þess er að fjöldi fólks fær ekki nauðsynlegt rými til að einbeita sér að bata þar sem það þarf að berjast fyrir réttindum sínum innan kerfis sem þau eru á sama tíma háð til að ná bata.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga til að mæta þessari þörf sjúklinga á bandamanni innan heilbrigðiskerfisins, sem stendur vörð um hagsmuni sjúklinga, starfar sem opinber talsmaður þeirra og sinnir upplýsingamiðlun og eftirliti með heilbrigðisþjónustu.

Von mín er sú að Alþingi taki afstöðu með sjúklingum og sameinist um að styðja tillöguna – svo þau okkar sem veikjast geti einbeitt sér að því að ná bata áhyggjulaus.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×