Íslenski boltinn

Átta ár síðan Eyjamenn unnu síðast þrjá leiki í röð í efstu deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjamenn fagna hér einu marka sinna í sumar.
Eyjamenn fagna hér einu marka sinna í sumar. Vísir/Diego

Eyjamenn björguðu sér frá falli úr Bestu deild karla með sannfærandi 3-1 útisigri á Fram um helgina. Liðið er það eina sem hefur unnið alla leiki sína í úrslitakeppninni í ár.

ÍBV-liðið endaði deildarkeppnina með aðeins fjóra sigra í 22 leikjum en hefur nú unnið þrjá leiki í röð úrslitakeppninni. Liðið er öruggt með sætið þrátt fyrir að tvær umferðir séu enn eftir.

Það er langt síðan að karlalið ÍBV hefur unnið svo marga leiki í röð í efstu deild en það þarf í raun að fara allt til júlímánaðar sumarið 2014 til að finna Eyjaliðið á viðlíka flugi.

Eyjamenn unnu fyrir rúmum átta árum þrjá leiki í röð á móti Keflavík (2-1), Fjölni (4-2) og Fram (2-0). Þetta voru jafnframt þrír fyrstu sigurleiki liðsins það tímabilið og í raun bættust aðeins tveir við eftir það.

Eyjamenn höfðu því aðeins náð mest að vinna tvo sigra í röð á síðustu fimm tímabilum sínum í efstu deild en Eyjamenn komu upp í deildina í ár eftir tveggja ára veru í B-deildinni.

Eyjamenn biðu reyndar lengi eftir fyrsta sigri sínum í ár en hann kom ekki fyrr en í þrettánda leik þegar þeir unnu 3-2 sigur á Val.

Síðan þá hefur Eyjaliðið unnið sjö af þrettán leikjum sínum þar af alla þrjá í neðri hluta úrslitakeppninnar.

Þessi 3-1 sigur á Fram kom í kjölfarið á 2-1 sigri á bæði Keflavík og FH.

  • Flestir sigrar í röð á síðustu tímabilum ÍBV í efstu deild:
  • 2012: 6
  • 2013: 3
  • 2014: 3
  • 2015: 1
  • 2016: 2
  • 2017: 2
  • 2018: 2
  • 2019: 1
  • 2022: 3



Fleiri fréttir

Sjá meira


×