Fótbolti

Hazard hefur spilað í þrjú ár hjá Real án þess að spila í El Clasico

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard hefur verið í Real Madrid frá því sumarið 2019 en aldrei fengið að spila á móti Barcelona.
Eden Hazard hefur verið í Real Madrid frá því sumarið 2019 en aldrei fengið að spila á móti Barcelona. Getty/Oscar J. Barroso

Sumarið 2019 keypti Real Madrid Eden Hazard frá Chelsea og borgaði fyrir hann hundrað milljónir evra. Tími Hazard í Madrid hefur verið ein löng sorgarsaga en það er ein staðreynd sem er líklega mest sjokkerandi.

Hazard missti enn á ný af El Clasico leiknum á móti Barcelona um helgina. Það þýðir að þrátt fyrir að vera á sínu fjórða tímabili hjá Real Madrid hefur hann enn ekki komið við sögu í stærsta leik tímabilsins.

Real Madrid hefur nú leikið átta El Clasico leiki í röð án þess að Hazard fengi eina mínútu í einum leikjanna.

Fyrstu tvö tímabilin var Hazard alltaf að glíma við meiðsli en í síðustu fjórum leikjum liðanna hefur hann verið ónotaður varamaður.

Það að leikmaður sem félagið greiddi svo stóra upphæð fyrir sé ekki nothæfur í þessum risaleikjum er auðvitað áfellisdómur yfir stöðunni á þessum 31 árs gamla Belga.

Hazard hefur alls komið við sögu í fimm leikjum Real Madrid á þessari leiktíð og er bæði með mark og stoðsendingu í tveimur leikjum sínum í Meistaradeildinni.

Hann fékk síðast mínútur í deildinni 11. september síðastliðinn en hefur verið ónotaður varamaður í undanförnum fjórum deildarleikjum.

Hazard hefur leikið samtals 71 leik fyrir Real Madrid í öllum keppnum og er með 7 mörk og 11 stoðsendingar í þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×