Innlent

Stærsti skjálfti við Herðu­breið frá upp­­hafi mælinga

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hér sést glitta í Herðubreið, oft nefnd drottning íslenskra fjalla.
Hér sést glitta í Herðubreið, oft nefnd drottning íslenskra fjalla. Vísir/Vilhelm

Stærsti skjálfti sem mælst hefur við Herðubreið reið yfir í gærkvöldi.

Um klukkan tíu í gærkvöldi hófst skjálftahrina og hafa þrír skjálftar mælst yfir þremur að stærð, sá stærsti mældist upp úr klukkan ellefu. 

Hann var 4,1 að stærð og fannst meðal annars á Akureyri. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálfta við Herðubreið ekki óalgenga.

„Það koma hrinur þarna reglulega en þetta er stærsti skjálftinn sem hefur mælst með kerfinu sem við notum í dag, frá 1991. Næst stærsti skjálftinn mælist 1998 og var fjórir á stærð og örlítið minni en sá sem mældist í gærkvöldi,“ segir Lovísa í samtali við fréttastofu.

Flekaskil liggja yfir landið á þessu svæði og því eru jarðskjálftar ekki óeðlilegir. Lovísa segir þetta ekki fyrirboða um eitthvað annað.

„Herðubreið er talin hafa myndast í einu gosi og talið dautt eldfjall, það ætti ekki að gjósa þar aftur. Þetta eru ekki skjálftar vegna kvikuinnskots,“ segir Lovísa

Talsverð eftirskjálftavirkni hefur mælst á svæðinu í nótt. Þannig hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 520 jarðskjálfta á svæðinu norðan við Herðubreið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×