Fótbolti

Sveindís hafði betur gegn Glódísi í toppslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir er á toppnum með Wolfsburg.
Sveindís Jane Jónsdóttir er á toppnum með Wolfsburg. Karina Hessland/Getty Images

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg styrktu stöðu sína á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu er liðið vann sterkan 2-1 sigur gegn Glódísi Perlu Viggósdóttur og liðsfélögum hennar í Bayern München í dag.

Liðin sitja í fyrsta og öðru sæti deildarinnar og því var ljóst að um algjöran toppslag var að ræða. Glódís var í byrjunarliði Bayern, en Sveindís hóf leik á bekknum hjá Wolfsburg.

Ewa Pajor kom heimakonum í Wolfsburg í forystu stuttu fyrir hálfleikshléið áður en Svenja Huth tvöfaldaði forystu liðsins snemma í síðari hálfleik.

Klara Buhl minnkaði muninn fyrir Bayern á 73. mínútu leiksins, en nær komust gestirnir ekki og niðurstaðan því 2-1 sigur Wolfsburg.

Sveindís og stöllur hennar tróna því enn á toppi deildarinnar, nú með 15 stig og fimm stiga forskot á Bayern sem situr í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×