NRK greinir frá og segir að um sé að ræða mann á fertugsaldri sem lögreglu grunar að hafi síðustu tólf mánuði byggt upp persónu sem brasilískur fræðimaður á sviði Norðurslóða. Hann er hins vegar sakaður um að hafa verið að njósna fyrir Rússa þann tíma sem hann hefur dvalið í Noregi.
Maðurinn hefur starfað við Háskólann í Tromsö þar sem hann hefur verið við rannsóknir á Norðurslóðum og svokölluðum fjölþáttaógnum. Norska öryggislögreglan óttast að manninum hafi tekist að byggja upp einhvers konar net eða þekkingu á stefnu Noregis í þessum málum.
Þó ekki sé endilega talið að maðurinn hafi aflað sér upplýsinga sem ógni öryggi Noregs óttast lögregla að Rússar geti á einhvern hátt nýtt sér þær upplýsingar sem hann hefur aflað.
Maðurinn var handtekinn í gær en í frétt NRK er málinu líkt við leiknu bandarísku sjónvarpsþættina The Americans sem fjallaði um sovéska útsendara sem þóttust vera Bandaríkjamenn, á sama tíma og þeir njósnuðu um Bandaríkin.
Lögregla vill að manninum verði tafarlaust vísað frá Noregi. Hann neitar alfarið sök.